Espergærde. Hvorki útrásarvíkingur né gjaldþrota

Á leið minni til vinnu í morgun sá ég að fyrir framan mig, á sama vegi, á sömu braut, gekk kona með hund. Ég veit hver hún er þessi kona með hundinn. (Hvað hét aftur bókin sem ég gaf út eftir Tsjekhov, Kona með hund?)  Ég veit að hún talar um sig sem bakveika. Hún er með rautt, krullað hár. Hún gengur hvern morgun með hundinn og ég má passa mig á að verða ekki á vegi hennar. Við þekkjumst, þannig, en ég veit ekki hvað ég á að segja við þessa konu. Ég fer allur í hnút ef ég mæti fólki sem sendir frá sér öfuga orku. Hún gleypir mína orku. Í Harry Potter var þetta fólk kallað vitsugur.

Ég er almennt frekar lélegur til smáspjalls, finnst mér að minnsta kosti. En að taka þátt í smáspjalli við bakveika konu með hund sem geislar af akkúrat engri orku, þá fyllist ég algerri örvæntingu. Ég bara veit ekki hvað ég á að segja og ég leita eftir orðum, eða jafnvel heilum setningum, sem eru viðeigandi við þetta tilefni. En ekkert kemur upp í hugann. Ég brosi bara eins og fáráðlingur.

Í dag sendi ég tilboð í þýðingarrétt á bók sem ég las um helgina. Í dag þarf ég að fara með bílinn í skoðun. Í dag þarf ég líka að fara með bílinn í viðgerð en áður en það gerist á ég fund með bankamanni. Fundur með bankamanni klukkan 10. Það eru ekki margir í heiminum sem geta státað af fundi með bankamanni klukkan 10 á mánudagsmorgni og ég sem er hvorki útrásarvíkingur né gjaldþrota. Yo.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.