Espergærde. Heimska annarra.

Hér í litla bænum mínum þekki ég orðið allnokkra. Flestir eru annað hvort fótboltavinir mínir (ég spila fótbolta í fótboltafélaginu hér) eða foreldrar barna sem börnin mín ganga í sama skóla. En ég þekki engan hér í bænum sem er í bókabransanum nema eina konu. Hún er rithöfundur. Það er kannski of mikið sagt að við þekkjumst, við heilsumst á götu, skiptumst á vel völdum orðum og brosum. Ég þekki höfundarferil hennar ekki vel en ég veit að hún varð nokkuð þekkt hér í Danmörku fyrir erótískt smásagnasafn sem kom út fyrir nokkrum árum og þótti djarflega skrifað.

Í morgun þegar ég gekk í mínum eigin þönkum áleiðis til forlagsskrifstofunnar mætti ég skáldkonunni. Hún stóð skyndilega úti á götu, ákaflega óformlega klædd með sína ljósu lokka alla í óreiðu. Hún vinkaði ákaft til mín, svo ákaft að mér datt fyrst í hug að hún þyrfti á bráðri hjálp að halda. Ég greikkaði því sporið og eiginlega hálfhljóp í áttina til hennar. Líkamsstaða hennar gaf til kynna að hún var algerlega ósjálfbjarga og þurfti athygli mína tafarlaust.

„Góðan daginn, Lísa,“ sagði ég. Ég hef aldrei fyrr ávarpað hana með nafni. En um leið og ég sleppti setningunni kom á mig fát því allt í einu var ég í vafa um að hún héti Lísa.
„Heyrðu, Zlatan,“ segir hún andstutt. Zlatan, hugsaði ég, það er fyndið að hún kalli mig Zlatan.
„Já, er ekki allt í lagi …  hjá þér, á ég við?“
„Jú, nei, ég er satt að segja rétt kominn heim eftir svakalegan túr. Ég var í fríi í Malaga,“
„Jahá?“
„Já og ég var send heim með röngu flugi.“
„Noh …“ Ég þagnaði og beið eftir að hún útskýrði þessa merkilegu staðhæfingu en hún hvarf inn í sinn eiginn huga. Hún sagði ekki neitt, horfði bara hugsandi heim að húsinu sínu þar sem útdyrnar stóðu opnar upp á gátt. Það var eins og hún hefði gleymt því að hún hafði kallað mig til sín. „Og hvað gerðist?“ sagði ég þegar mér fannst staða mín úti á miðri götu í félagi með hálfklæddri konu orðin frekar óþægileg.
„Æ, má ég ekki bjóða þér inn,“ sagði hún svo.
„Nei, ég er eiginlega að flýta mér svolítið. Ég á von á manni á skrifstofunni rétt strax.“ (sem var alveg satt.)
„Já ég var á leiðinni heim eftir frí í Malaga og svo var ég tekinn inn í vitlausa flugvél. Og ég lenti bara í öðru landi.“
„Afhverju varstu tekinn inn í þessa flugvél… eða hver…?“
„Það var bara einhver á flugvellinum í Malaga sem sagði við mig þetta er gate-ið til Kaupmannahafnar og benti á gate númer 19 og ég fór þangað og mér var hleypt inn í vélina. Að vísu pípti tölvan þegar miðinn minn var skannaður en flugfreyjan eða hver það er sem skannar miðana sagði bara að þetta var tölvan sem var með vesen og svo fór ég inn í vélina. Ég átti sæti 10C en þar sat maður og hann var látinn flytja sig í sæti aftar í flugvélinni og svo flugum við af stað. Þegar flugstjórinn sagði að við værum að fara að lenda varð mér litið út um gluggann og sé að yfir landinu er snjór og ég sé fjöll og það þótti mér undarlegt. En svo lentum við og ég kom út úr vélinni og sá að ég er lent í Osló. Velkomin til Osló stóð stórum stöfum á einum af veggjum flugstöðvarinnar.“
„Ha?“
„Já, ég var bara allt í einu í Osló. Hvað á maður að gera? Ég vildi að mér yrði flogið heim eins og skot. En þessir andskotar í Osló sögðu að ég þyrfti að kaupa miða til Kaupmannahafnar, ég fer í mál við Norwegian.“

Það var tryllingur í augum skáldkonunnar og sá að ég ætti ekki að blanda mér í þetta flugævintýri hinnar erótísku skáldskonu. En það er alveg rétt hjá henni að það er ótrúleg heimska að senda hana með röngu flugi. Ég mundi líka fara í mál við alla þá sem eru ábyrgir fyrir heimsku minni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.