Espergærde. Úti á akrinum

Í gærkvöldi ákvað ég að fá mér göngutúr í kvöldlogninu. Ég hafði horft á fótboltaleikinn milli Juventus og Monaco og allir á heimilinu voru sofnaðir. Jón Kalman hafði rétt náð að senda e-mail en ég lét sem ekkert væri. Ég gekk bara út í svalt kvöldloftið og arkaði af stað.

Ég átti svo sem ekki von á að mæta mörgum á göngu minni en ég furðaði mig þó á hvað margir skokkarar með blikkandi aðvörunarljós um upphandleggginn urðu á vegi mínum. Ég gekk upp Strandvejen og sveigði svo til hægri inn á lítinn, fáfarinn veg sem liggur inn á milli kornakrana. Hér er allt nánast flatt, engin mannabyggð, bara akrarnir sem bylgjast örlítið, litlar hæðir og smádældir svo langslagið verður mjúkt og blítt. Ég sá framundan glitta í tvær manneskjur sem stóðu í hálfmyrkrinu í heitum samræðum úti í vegarkantinum. Þegar ég nálgaðist greindi ég að þarna stóðu hjón sem ég kannast við. Þau tóku mér fagnandi (föðmuðu mig innilega eins og mín hefði verið sárt saknað) og spurði hvað í óköpunum ég vildi út á akrana svona seint um kvöld.

„Ég er bara í smágöngutúr. Ég nennti hvorki að fara að sofa né að setjast út á garðbekkinn og fá mér vindil. Hvað eruð þið að þvælast hér?“
Þau litu hvort á annað og fóru að skellihlægja.
„Við erum að skipuleggja byggingarverkefni hérna úti í víðáttunni. Hér er svo mikið pláss og við erum orðin svo sérsinna að við viljum hafa loft í kringum okkur. Við nennum ekki fólki.“
„Noh, þetta hljómar vel. Má ég vera með?“
„Hefurðu áhuga á því?“
„Já, ég er líka orðinn svona sérsinna. Ég nenni bara að umgangast örfáar manneskjur og þær eru ekki valdar af handahófi.“

Við ákvaðum að vera í sambandi um framhald þessa mikla byggingarverkefnis.

dagbók

Skildu eftir svar