Espergærde. Eymdarfíkn og ófullkomin flóttaáætlun

Ég var aldeilis hissa þegar ég sá mynd af erótísku skáldkonunni, sem býr hér í bænum, í JyllandsPosten í dag.  Stór fyrirsögn prýddi frétt um skáldkonuna og flugævintýri hennar: „Send í ranga flugvél á leið heim úr fríi.“ Hún var ansi raunamædd á svipinn, skáldkonan á myndinni. Ljósu lokkarnir voru þó ekki í sömu óreiðu og þegar ég mætti henni úti á götu í fyrradag. (sjá hér). Ljósmyndari dagblaðsins hefur leikið sér með ljós og skugga í andliti konunnar og ég tek eftir því þegar ég skoða andlitið nánar að hún er þrátt fyrir allt andlitsfríð. Eins og venjulega stekkur dagblað á svona ekki-frétt í eymdarfíkn sinni. (hó, hó rólegur)

Í gær fékk ég tölvupóst frá ungum rithöfundi sem talaði í hálfgerðum gátum. Ég var satt að segja ekki alveg viss í hvað hann vísaði í bréfi sínu. Stundum heldur fólk að ég sé betur inni í hinum ýmsu flokkadráttum og samsærisplottum en ég er. Hinn ungi höfundur byrjar póstinn sinn á þessari ágætu setningu – og ég verð að segja að ég var engu nær hvorki við að lesa setninguna aftur og aftur né að lesa allan póstinn: „Engin flóttaáætlun er fullkomin. Allt er háð því hvernig maður bregst við hinu óvænta.“ Ég ákvað að taka ekki þátt í samræðum við hinn unga höfund og því er það sem átti að vera samtal við mig hans eigið eintal. Kannski var bréfið hluti af einhverju nýstárlegri markaðssetningu, ég veit ekki. I don’t know, babe.

Framundan er löng helgi hér í Danmörku. Á morgun er opinber frídagur. Davíð lagði til að við hefðum veislumat í kvöld þar sem í dag væri einskonar föstudagur, „lille fredag,“ eins og hann orðaði hugsanir sínar. Ég hef hinsvegar stórar áætlarnir fyrir helgina; ég sinni verkefninu fyrir hann Palla á fullum krafti. Nú íhugar hann að koma í heimsókn til Danmerkur og þá verð ég að geta sýnt honum að ég standi undir væntingum.

ps. Rakst á þetta útigrill (sjá mynd) á leið minni til vinnu. Þetta er sorgleg sjón. Ha?

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.