Espergærde. Samviska hinnar Lúthersku sálar.

Frídagur hér í Danmörku en ég fór samt í jóga í morgun. Fyndinn hópur fólks sem ég er með í jóga. Við erum átta, flest hjón eða pör. Karlarnir stífir eins og plankar en konurnar mjúkar sem smjör. En það er gleði í hópnum, það er klappað þegar einhver getur staðið á haus eða farið upp í háa brú. Eða gert eitthvað flott. Yo.

Nú er sem sagt frídagur, ég fer ekki á skrifstofuna í dag, og það þýðir að ég hef enga eirð í mér til að sitja á rassinum og skrifa. Ég hef verkefni, ég get ekki setið kyrr fyrir minni Lúthersku samvisku. Maður þarf alltaf að píska sig áfram, þræla sér út eins og einhver verði glaðari við það.

Mig dreymdi foreldra mína í nótt. Meira hvað þau sækja á mig, foreldrar mínir eftir að þau dóu. Ég er líka með samviskubit gagnvart þeim, finnst eins og ég hefði átt að sinna þeim betur í elli þeirra.

Tókst að leysa fyrsta verkefni dagsins, (á milli þess sem ég settist niður við dagbók dagsins) festa sturtuhaus sem allur var skakkur. Meira vesenið sem það var, ég slapp með skrámur frá verkefninu en leysti það.

Næsta verkefni.

Búmm. Áfram.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.