Espergærde. Fimmtánpizzukvöld

Ég er að lesa bók eftir Hiromi Kawakami. Sérkennilegt hvað mér finnst gaman að japönskum litteratúr. Nú hef ég útgefið tvær bækur eftir þessa ágætu skáldkonu hér í Danmörku og sennilega kaupi ég útgáfuréttinn á þriðju bók Kawakami. Það er eitthvað skemmtilega klikkað í bókunum hennar (og mörgum öðrum japönskum bókum sem ég hef lesið). Þegar ég var í Japan fyrir rúmu ári og ferðaðist um landið í fimm vikur fann ég ekki fyrir þessari léttklikkun, þvert á móti virtist allt vera sérlega óklikkað í þessu þráðbeina landi.

Var rétt í þessu að fá í hendurnar handritið að nýrri bók eins af vinsælustu höfundum hinnar íslensku þjóðar. Ég byrjaði strax að lesa og maður getur ekki sagt annað en að bókin byrji ansi vel. Ég hafði ekki lesið lengi þegar mér varð hugsað til Ástu S. Það var eitt og annað í lestrinum sem minnti mig á Ástu, mína góðu samstarfskonu til margra ára hjá bókaforlaginu Bjarti. Æ, hún mátti þola eitt og annað sú góða kona… alla mína þráhyggjutónlist, allt mína stríðni og viðkvæmni og allt mitt merkilega skipulag í óskipulaginu. Sorry, babe.

Það er heill dagur framundan. Ekki skortir verkefnin, mér er ekki til setunnar boðið (eða eins og ég segi títt „jeg er ikke inviteret til at sidde“) og þar að auki á ég von á gestum í pizzu í kvöld. Okkar nýi og fíni útipizzaofn verður hitaður upp í dag. Það koma sennilega fjórir gestir og svo bætast vinir hans Núma örugglega örugglega í hópinn þegar þeir finna pizzulyktina svo ég þarf örugglega að baka 15 pizzur í kvöld. Pizzeria de Orso Bianco.

dagbók

Skildu eftir svar