Espergærde. Eyjan Hveðn

Í gær þegar sólin var hátt á himni og ég hafði borðað morgunmat, lesið dagblöðin og spilað tennis við duglega manninn, ákvað ég að fá mér göngutúr úti í bjartviðrinu. Ég hafði reynt að lokka Davíð með út en hann var ekki í skapi fyrir rölt án áfangastaðar. Það voru fáir á ferli á götum Espegærde þennan sunnudag og á leið minni niður að strönd mætti ég bara einni konu með hund í bandi. Eyrarsundið var spegilslétt og eyjan Ven (eða Hveðn eins og onkel Palli kallar hana) hér mitt á milli Danmekur og Svíþjóðar líktist fyrirheitnalandi þar sem hún skagaði 39 metra upp úr  rennisléttum haffletinum.

Eftir nokkra göngu meðfram ströndinni settist ég á bekk og fylgdist með tveimur mönnum við veiðar. Þeir stóðu útí í sjó í vöðlum upp að mitti og biðu þess að eitthvað biti á. Allt var kyrrt, nema fuglarnir í trénu fyrir ofan mig voru í banastuði og sungu hástöfum.

Ég lék mér að því að taka nokkrar sólarljósmyndir á ferð minni en gleymdi að ljósmynda veiðimennina tvo.

Ég hef lengi velt fyrir mér hvað logoið á Skodabíl á að sýna. Í gær ákvað ég líka að taka mynd af þessu bílmerki til að geta skoðað það nánar í ró og næði. En þótt ég notaði allar mínar samanlögðu vökustundir til að skilja þetta lógó myndi það ekki leiða til neinnar niðurstöðu. Ég fékk því Google til að hjálpa mér og hér er kemur speki fröken Google: „Skoda-logoið er fljúgandi píla með vængi sem er tákn fyrir framfarir. Augað í væng pílunnar stendur fyrir sýn mannsins, framtakssemi og nákvæmni.“ Hér er mynd, eða tvær myndir, af bílmerkinu.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.