Espergærde. Tvö bréf

Eitt af því sem gladdi mig sérlega í gær var bréfasending, tvö bréf, bæði stíluð á mig og ætluð mér. Bréf hingað til útlandsins eru kærkomin. (Kannski vitlaust að kalla tölvupóst bréf, hmm. En sendibréf er það þótt Íslandspóstur komi hvergi nálægt.) Bæði voru bréfin bráðskemmtileg og það var greinilegt að bréfritarar lögðu sig fram um að dilla mér. Annan þeirra, sem sendi mér bréf í gær, þekki ég ágætlega, enda er hann kunnur rithöfundur og við höfum unnið að sameiginlegum verkefnum, bæði þegar ég vann á Íslandi hjá mínu gamla forlagi og síðar höfum við aðeins hjálpað hvor öðrum. Mér fannst svo fínt, og ber vott um gott hjartalag bréfritarans, þegar hann segir: „Datt í hug að skrifa þér, svona þér til skemmtunar… Ég er það fljótur að vélrita að mig munar ekki um það.“

Hinn bréfritarann hef ég ekki hitt lengi og satt að segja hélt ég ekki að ég væri sérstaklega í náðinni hjá henni, en samt skrifar hún mér eins og við séum að minnsta kosti góðir kunningjar. Þótt ég hafi enn ekki svarað bréfunum, og nú sé liðinn meira en hálfur sólarhringur frá því að þau bárust, hef ég svo sannarlega í hyggju að gefa mér tíma til að þakka fyrir þessi dásamlegu skrif.

Konan sem skrifar mér kemur víða við og það er með ólíkindum hvað hún er vel heima í dagbókarskrifum mínum, hún man betur en ég hvað ég hef sagt og skrifað. Sumt tekur hún undir, annað ávítar hún mig fyrir að skrifa. Á einum stað skrifar hún (hún gefur mér leyfi til að birta brot úr bréfi sínu ef ég gæti nafnleyndar):

„… Ég hafði gaman að því þegar þú skammaðir vin þinn Eirík fyrir fordóma. Ég held nú ekki að útvarpsmaðurinn sé sérstaklega fordómafullur maður, hann er kominn af of góðu fólki til þess. Fordómarnir í útvarpsþættinum hans og Önnu felast einmitt í meintu fordómaleysi, þessari yfirlýsingu um fordómaleysi, vissunni um að telja sig geta greint á milli hvað séu fordómar og hvað ekki. Þú hefur rétt fyrir þér og ég er sammála því sem þú skrifar og ég vildi láta þig vita að ég stend með þér…

… Ég man að ég hitti ykkur tvo, þig og Eirík, einu sinni þegar þið voruð saman úti að versla í Hagabúðinni. Það er langt síðan. Þið voruð spaugilegir, eins og gömul, samheldin hjón. Það varst þú sem keyrðir búðarvagninn og tókst vörurnar niður úr hillunum. Eiríkur fylgi í humátt á eftir, glottandi, og fannst allt sem þú keyptir alger óþarfi og vitleysa. En þú tókst völdin, klappaðir honum á öxlina, leiddir hann í gegnum búðina og hlóst að honum. Ég laumaðist til að njósna um ykkur og man þetta ennþá því það var svo fyndið að fylgjast með ykkur. Ég hef sagði mörgum söguna af ykkur í veslunarleiðangri… Eiríkur var í ullarpeysu, blárri og hvítri … 

… Ein af ástæðunum fyrir að ég skrifa þér, en það hef ég ætlað mér lengi, (ásamt öllum hinum ástæðunum sem ég hef þegar nefnt) er að mig langar að biðja þig að setja saman uppáhaldslista. Nennirðu að búa til lítinn uppáhaldslista fyrir mig, ég safna uppáhaldslistum fólks. Það er hlægilegt, en satt…  Í tvígang hef ég meira að segja haldið sýningu á uppáhaldslistum, eða mína útfærslu á fyrirbærinu. Einu sinni á Egilsstöðum, á bókasafninu, og einu sinni í Stykkishólmi. Ég á tvo lista eftir þig, ég veit ekki hvort þú manst eftir að hafa skrifað uppáhaldslista fyrir mig, það eru orðin mörg árin síðan. Hinum stal ég frá þér af Kaktusnum …“

Bréfið er langt, yndislega langt fyrir mann í útlöndum, og inniheldur meðal annars lýsingu á hvernig hinn pantaði uppáhaldslisti eigi að líta út. Ég get ekki annað en orðið við ósk þessarar gömlu vinkonu.

Uppáhalds-litur: Gulur. Ekki Bónusgulur eða Nettógulur. Gulur litur er einungis fallegur úti í náttúrunni. Mér finnst gulir sinnepsakrar hreint undur. Guli liturinn á sóley, blóminu, er eitt það fallegasta sem ég sé og þá á ég við litinn.

Uppáhalds-fótboltamaður: Á ég að segja Zlatan, ég kann vel við hann, sérstaklega hæfileika hans til að leika sér að fjölmiðlum. Jóka þá til, spila á innbyggða vitleysuna og fíknina í góðar fyrirsagnir. En það er ekki hann. Á ég að segja Eric Cantona? Mér fannst gaman að hömluleysi hans og leiðtogahæfileikum. Líka flott að hann hafði númerið 7 á bakinu. Ég held að enginn i Manchester United megi lengur spila í treyju númer sjö. Minn ítalski skaphundur, Gattuso? Baráttuandi og vinnusemi hefur alltaf verið mér að skapi. Pirlo? Hann spilar fótbolta eins og sannur listamaður, allt er fallegt sem hann gerir á vellinum. Kevin de Bruyne? Já, er það ekki bara hann? Hann er snillingur.

Uppáhalds-blóm: Gleym-mér-ei. Systir mín kenndi mér að meta þetta smágerða blóm, sem hefur svo viðfelldið nafn.

Uppáhalds-orð: Ristavél.

Uppáhalds-rithöfundur: Ég get ekki sagt Kazuo Ishiguro, það hef ég sagt svo oft, og meint það. Get ég sagt Kjell Askildsen? Ég var stórkostlega heillaður af smásögum norðmannsins. Ef ég á að nefna eitthvað alþýðlegt t.d. glæpasagnahöfund get ég með ánægju nefnt Håkon Nesser fyrir bækurnar: Levende og døde i Winsford og Menneske uden hund. Ég get líka nefnt pólska ljóðskáldið Wislawa Szymborska sem Geirlaugur þýddi fyrir mig fyrir löngu. Japönsku Hiromi Kawakami (ég er einmitt að lesa bók eftir hana núna), Donna Tartt, Niccolo Ammaniti …

Uppáhalds-leikari: Á ég að segja Kate Blanchett: Hún er aldeilis frábær leikkona sem getur leikið svo ólík hlutverk og er ósegjanlega fögur. Frances McDormand er dúndur flínk og eftirminnileg í Fargo.

Uppáhalds-málari: Það var ógleymanlegt að vera í leiðsögn Einars Fals í gegnum Louvre og skoða nokkur af meistaraverkum ítalska málarans Caravaggio. Einar Falur vakti okkur nokkra félaga snemma sunnudagsmorgun einn í París eftir langa nótt og sagði okkur að hann hefði undirbúið guided tour í gegnum Louvre með áherslu á Caravaggio. Nú væri rétti tíminn, því á sunnudagsmorgni væru ekki svo margir í safninu. Ég held að við höfum bara verið þrír sem drösluðumst á fætur og þó vorum við átta saman í þessari Parísarferð. En hinir misstu af góðri sýningu og góðri leiðsögn. Þar á eftir hef ég alltaf verið heillaður af Caravaggio. Annars finnst mér blómamyndir Eggerts Péturssonar og eilífðarmyndir Georgs Guðna fallegar.

Uppáhalds-tónlistarmaður: Ég veit ekki hvort ég geti sagt að Bryndís Halla Gylfadóttir sé uppáhalds tónlistarmaður minn. Mér dettur hún bara fyrst í hug, sem er óvænt. En ég nefni hana hér því ég gleymi ekki tónleikum sem Bryndís Halla Gylfadóttir (selló) og Steinunn Birna Ragnarsdóttir (píanó) héldu, að mig minnir, í kirkju í Garðabæ. Á efnisskránni voru sjö varationir við stef úr Töfraflautu Mozarts fyrir selló og píanó. Salurinn var lítill og áheyrendur ekki margir. Af einhverju ástæðum sat ég fremst og eiginlega í fanginu á Bryndísi Höllu sem mér fannst spila eins og engill. Sellóhljómur er engu líkur. Ég átti erfitt með að draga andann á þessum tónleikum, mér fannst þetta svo áhrifamikið.

Uppáhalds-dýr: Veit ekki, en mér finnst skjöldurinn á stórri skjaldböku mjög flottur. Ég vissi ekki að á skildinum væri svo magnað munstur. En ég hitti einu sinni stóra skjaldböku sem var í göngutúr í óbyggðum Tanzaníu og ég var í bíl á ferð um sömu óbyggðir.  Ég stökk út úr bílnum til að skoða dýrið. Allt við skjaldböku er svo out of time. Maurar eru glæsilegir í vinnusemi sinni og hérar, sérstaklega vegna augnanna og skottsins, eru viðkunnaleg dýr.

Þetta er listi dagsins.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.