Espergærde. Fyrir sig eða aðra

Í hádeginu í gær átti ég stefnumót inni í Kaupmannahöfn, höfuðborginni. Höfuðstaðurinn er höfuðstaður í mörgum skilningi hér í Danmörku. Kaupmannahöfn er fyrir Danmörk það sem 101 er fyrir Reykjavík. Allt menningarlíf sem gerist fyrir utan Kaupmannahöfn er næstum ekki með, það er svolítið lummó og sveitó og skiptir ekki máli. Espergærde, þar sem ég bý, er eins og Álftanes Íslands. Ekki svo langt frá Kaupmannahöfn, sem sagt OK. Hér býr skáldkona, fræg, erótísk skáldskona.

Sem sagt, í hádeginu hitti ég bóndasoninn Jóhannes Riis, forleggjarann hjá Gyldendal, inni í Kaupmannahöfn. Ég hef þekkt Jóhannes síðan hann kom á Bókmenntahátíð í Reykjavík, sennilega árið 2005. Eftir að við fluttum til Danmerkur höfum við hist tvisvar eða þrisvar á ári, borðað hádegismat saman og farið yfir stöðu menningarmála. Hann er stilltur maður, hann Jóhannes, lágmæltur og hógvær. Alltaf óaðfinnanlega klæddur; jakkaföt, nýstrauuð skyrta og fínlegt bindi. Jóhannes er einn af fáum mönnum sem ég þekki sem drekkur hvítvín í hádeginu og er mikill sérfræðingur í hvítvínum. Við höfðum varla sest við borðið á veitingastaðnum við Grábræðratorg þegar hann hóaði í þjóninn og pantaði hvítvínsflösku:
„Hó! Eina flösku SOHO, Sauvignon Blanc, takk.“
Ég var nú eiginlega bara til í að fá mér einn bjór, en SOHO skyldi það vera.

Við sátum saman í rúma tvo klukkutíma við notalegt spjalla, en svo kallaði skyldan og við flýttum okkur hvor í sína áttina. Ég á mín fínu skrifstofu út á Álftanesi Danmerkur en hann á sína fínu skrifstofu mitt inni í Kaupmannahöfn, þar sem maður gengur á kóngabláu teppi fram hjá virðulegum ritara áður en maður kemur inn á hina klassísku forstjóraskrifstofu gamals forlags. (Ég mundi allt í einu að Jón Kalman gerði hreint í húsakynnum Gyldendal þegar skáldið dvaldi eitt eða tvö ár í Danmörku á sínum ungu árum.)

En talandi um teppi. Ég hitti nefnilega ungan mann, tónlistarmann sem ég kannast við, á göngu minni frá veitingastaðnum í Kaupmannahöfn. Mann með hvítar snúrur úr eyrunum. Hann er töluvert yngri en ég en hann fagnaði mér innilega þegar við mættumst. Honum lá eitthvað á hjarta fann ég.

„Heyrðu,“ sagði hann um leið og hann tók hvítu snúrurnar úr eyrunum og setti í brjóstvasann á skyrtunni sinni. „Það er svolítið fyndið. Ég fékk þessa líka ómótstæðilegu þörf að fara inn í teppabúð. Ég er alinn upp á heimili með teppum. Teppi, teppi, teppi í öllum herbergjum og ég var þannig gaur að ég lá oft tímunum saman á gólfinu. Lá bara. Þá umlykur teppalyktin þig. Nú bý ég eins og allir aðrir í íbúð með trégólfi. Trégólf.  Trégólf. (Hann bendir í allar áttir með einum putta.) Enginn hefur lengur teppi neins staðar. Og svo áðan fékk ég líka þessa bráðalöngun í teppalykt og ég hugsaði með mér að eini staðurinn sem ég vissi að ég gæti fundið teppalykt, lyktina af teppalími, væri í teppabúð. Ég fann teppabúð. En þegar ég kom þangað inn var það ekki nóg að finna lyktina aftur, ég þurfta að deila þessari reynslu. Það var algjörlega tómt að standa þarna einn milli allra teppanna og draga að sér lyktinni. Ég þurfti viðbrögð, ég þurfti að sýna einhverjum viðbrögð mín. Ég þurfti að hafa einhvern til að vera með mér í þessu. Ég gat ekkert gert við þessa reynslu. Ég hunskaðist aftur út. Mig vantaði læk, hjörtu og broskalla.“

Mér fannst þessi frásögn athyglisverð sérstaklega vegna þess að kvöldið áður hafði ég lesið viðtal við danska skáldkonu sem skyndilega braust fram á bókmenntasviðið, beint í sviðsljósið. Dorthe Nors. Hún er fædd árið 1970. Hún kemur frá landsbyggðinni, frá vesturströnd Danmerkur þar sem  víðátturnar eru miklar, hátt til himins, akrar svo langt sem augað eygir, haf og langar strendur. Hún kemur sem sagt ekki frá höfuðstaðnum. En varð allt í einu fræg því að New Yorker birti smásögur hennar (enginn í Danmörku þekkti hana) og það er toppurinn. Og svo nú er hún ein af finalistunum í MAN BOOKER- verðlaununum fyrir nýjustu skáldsögu sína: Spejl, skulder, blink (það væri nú aldeilis fín neonbók). En hvað um það. Ég las viðtal við hana og hún segir að hún hafi eiginlega flúið til baka til vesturstrandarinnar eftir að hafa búið í Kaupannahöfn síðastliðin sex ár, til baka til kyrrðarinnar og einsemdarinnar. En til að gera langt mál stutt. Í viðtalinu dásamar hún nefnilega einsemdina. Að vera ein með sjálfri sér og sinni eigin reynslu, það er lykillinn að sköpun. Hún segir frá því að hún hafi alltaf flúið ein út í náttúruna, alveg frá því hún var barn. Tekið hjólið sitt og horfið allan daginn, upp á hæð, upp í tré, út á strönd þar sem hún var ein í marga klukkutíma. Og þar er uppspretta allrar hennar sköpunnar. Fyrir hana var einsemdin og að fara inn í sig, hið upphafna. Teppamaðurinn vinur minn hefði hlaupið gargandi frá skortinum á samreynslu á vesturströndinni.

Svona er fólk ólíkt. Svona eru kynslóðirnar ólíkar.

ps. var í jóga í morgun og Júlía brilleraði eins og oft áður. Júlía er extrovertinn í jógahópnum, dramadrottningin. Hún er fyndin, meira um hana síðar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.