Espergærde. Ástkonan

Seint í gærkvöldi, eftir að ég hafði spilað kappleik með fótboltaliðinu mínu á móti Hornbæk FC (við unnum 3-1 og erum ósigraðir, efstir í deildinni, yo) og ég kominn heim, búinn að borða kvöldmat (löngu á eftir öðrum), sestur í bláa, djúpa lesstólinn minn,  leitaði hugurinn mjög óvænt og skyndilega til bókarinnar Ástkona franska lautinantsins eftir John Fowles. Mér verður svo sem stundum hugsað til þessarar bókar því sjaldan eða kannski aldrei hef ég verið jafn uppnuminn af lestri bókar og þegar ég kláraði Ástkonuna. Ég fékk bókina bókstaflega á heilann. Ég var alveg trylltur. (Þrjár aðrar bækur koma upp í hugann þegar ég hugsa um gjörmagnaða lesreynslu: Ævintýradalurinn eftir Enid Blydon, (þá bók las ég 850 sinnum), Ég um mig frá mér til mín eftir Pétur Gunnarsson (sem ég las á jólanóttu og hló svo mikið að pabbi minn vaknaði, hélt að lægi grátandi inni í rúmi og kom til að hugga mig.) Gunnar og Kjartan eftir Véstein Lúðvíksson (sem hitti mig akkúrat á réttu augnabliki í þroskaferli mínum.))

Ástkonu franska lautinantsins las ég í fríi á Spáni. Ég gleypti bókina í mig á grasbala við sundlaug, en ég hefði alveg eins getað verið uppi á fjöllum eða úti á hafi. Ég var gersamlega sogaður inn í frásögnina, var eiginlega staddur í enska smábænum Lime Regis þar sem atburðir sögunnar gerast. Ég reyndi að finna bókina í gærkvöldi í bókahillu heima en fann hana ekki. Bókin er örugglega einhvers staðar í einhverri hillu, en ég fann hana bara ekki eftir lauslega leit. Bækurnar mínar eru ekki í stafarófsröð og ef bókasafnsfræðingur kæmist í þessa óreiðu sem einkennir bókasafn mitt fengi fræðingurinn hjartaáfall yfir því hvaða bækur liggja saman, hlið við hlið. Ég held meira að segja að ég muni rétt að bók eftir John Grisham, sem ég las nýlega, halli sér makindalega upp að þekktustu bók H. K. Laxness, Sjálfstætt fólk. Þetta gengur auðvitað ekki eða jú auðvitað gengur þetta.

Ég settist því aftur niður í stólinn minn eftir leitina – hálf dasaður eftir 10 km hlaup á fótboltavelli og töluverð líkamleg átök – og fór svo að velta fyrir mér hvort John Fowles væri enn á lífi. Ég teygði mig eftir tölvunni minni (ég er svo heppinn að eiga iBook frá Apple og ég var nýbúinn að hlaða batteríið) og spurði Google. Google svaraði að Fowles hefði dáið árið 2005 í borginni Lime Regis, litlum 4500 manna bæ á suðurströnd Englands (helmingur íbúanna er kominn á eftirlaun.) Ekki vissi ég að Fowles hafði lifað og dáið í Lime Regis, mitt á sögusviði Ástkonunnar. Jæja, þá veit ég það. Áfram. Nú þarf ég að fara að vinna, koma að gagni og selja nokkrar bækur. Ferlegt að ég geti ekki selt einhverjum Áskonu franska lautinantsins, það hefði verið gaman að hafa gefið hana út.

PS. Hó fékk rétt í þessu skilaboð frá WordPress að nú hefði ég skrifað 500 færslur á Kaktusinn. Time to celebrate!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.