Espergærde. Kveikt upp

Ho. Síðasta dagbókarfærsla, frá í morgun, var svo stutt að það er varla að hún telji. Hér er glampandi sól og mikið fjör á lestarpallinum fyrir utan gluggann á skrifstofu minni. Ungmenni hafa tekið fram bjórkippur og sitja á stéttinni og sötra bjór. Konurnar hafa sett upp sólgleraugun og karlmennirnir hafa farið úr jakkanum (nú hangir jakkinn yfir öxl þeirra og vísifingur er hankinn.) það er létt yfir hinum bíðandi lestarfarþegum.

Unga stúlkan sem stundum stendur hér og syngur fyrir utan gluggan minn með head-phone yfir eyrunum er mætt, enn á ný, fyrir utan gluggann og bíður eftir lestinni til Helsingør. Nú syngur hún ekki, heldur hangir utan um kærastann sinn, og tungan á henni, sem vanalega er notuð í söng, er upptekin við að vefja sig utan um tungu hans. Þannig getur maður ekki sungið. Ne-ei.

Já, og í kvöld verður kveikt upp í pizzaofninum úti í garði hjá mér. Ole arkitekt og Tina ætla að koma í pizzu í kvöld. Ole er þegar búinn að panta calzonepizzu, hina lokuðu pizzu. Tina er meira fyrir pizza bianco, hina hvítu pizzu (það er án tómasósunnar). Ég hef pantað pizza tonno, túnfiskpizzuna… aðrir gestir eru óákveðnir í sínu vali. En sólin skín á okkur í dag.

ps. það var jóga í morgun og jóga-Júlía brilleraði aftur.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.