Espergærde. Óskastarf

Einn af mínum góðu, íslensku vinum skrifaði mér í gær og sagði að nú væri hann á leið upp í sveit að sinna verklegum framkvæmdum. Einhverjar jarðvegsframkvæmdir sem ég sá ekki alveg fyrir mér. En þar sem ég sat á skrifstofu minni, umvafinn pappírum, samningum, ársskýrslum, sölutölum, útreikningum á höfundagreiðslum og handritum að allskonar bókahugmyndum, hugsaði ég með mér að ég væri aldeilis til í að taka þátt í þessum verklegu framkvæmdum og stökkva burt frá  skrifstofurykinu. En ég sat sem fastast og hélt áfram mínu pappírspuði. Útivinna sem útheimti líkamskrafta var heillandi.

Ég hef oft hugsað, sérstaklega þegar ég var yngri, að stundum væri gaman að hafa einfalt starf þar sem ég þyrfti ekki að hugsa neitt, eða að minnsta kosti ekki sérlega mikið. Þegar ég var í þessum gír gat ég vel hugsað mér að vera póstburðarmaður. Ganga á milli húsa með sendibréf. Þetta var á þeim tímum sem ég rak litla forlagið á Íslandi og of mörg spjót beindust að mér. Sérstaklega fannst mér erfitt þegar handrit frá ókunnugum höfundum streymdu inn (stundum lágu perlur í handritabunkanum, t.d. Bergsveinn Birgisson) og ég gaf mér ekki tíma til að lesa þau og svo komu auðmjúkar beiðnir um viðbrögð frá fólki sem hafði lagt líf og sál í skrif sín og vonaðist eftir að fá heiðarleg svör. Í þessum tilvikum keyrði ég stundum upp að Elliðaám, sat þar í úlpu og með trefil og las handrit. Stundum bara inni í bílnum mínum. Þar var allavega friður.

Pizzakvöldið í gær var skemmtilegt. Fleiri en ég hafði reiknað með. Jesper og Helle birtust og bættust í hópinn og Tobias vinur Núma, svo það voru skyndilega níu sem þurftu að fá pizzu í munninn. Það var aldeilis fjör í fólki.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.