Espergærde. Fótabað

Á hverjum morgni á leið til vinnu geng ég fram hjá skilti (sjá mynd) þar sem boðið er upp á fótabað og fótsnyrtingu. Sjálf fótameðferðin fer fram í litlu húsi hér rétt við skrifstofuna. Ég hef svo sem aldrei séð nokkurn mann fara þangað inn eða koma þaðan út en skiltið er sett út hvern morgun og tekið inn á hverju kvöldi.

Í dag nam ég staðar til að virða fyrir mér skiltið og stofuna þar sem fótameðferðin fer fram og hugsaði með mér að stundum nægir stutt fótabað til að hefja daginn, jafnvel vikuna, upp í hærri hæðir. Það þarf ekki milljónavinning í lottó til að setja gleðmælinn upp um nokkur stig. Kannski ætti ég bara að fara úr skónum og biðja um eitt stykki fótabað fyrir mínar ljótu fætur.

Á meðan ég undirbjó morgunmat fyrir fjölskylduna hlustaði ég á útvarpið. Það var karlmaður sem talaði og hann var ítrekað kallaður álagssérfræðingur (stressekspert). Boðsskapur hans var einfaldur og hann talaði eins og ákafur trúarleiðtogi, eins og allt væri að verða um seinan.

„Það á að vera eðlilegt að gera ekki neitt. Sumir hugsa með sér að maður getur bara sofið þegar maður verði gamall. NEI! Svefninn er forsenda þess að þú verðir gamall. Að hvíla sig og slaka á er forsenda þess að þú getir yfirhöfuð afrekað eitthvað.“ Svona hélt hann áfram þessi ágæti álagssérfræðingur. Og kannski var það vegna orða hans að ég staldraði við fótabaðsskiltið.

Í dag bíð ég örlítið spenntur eftir tveimur svörum frá Íslandi við fyrirspurnum mínum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.