Espergærde. Heiðursvindlar

Það var milt kvöldloftið í gær. Ég sat yfir verkefnum fram til myrkurs og ákvað svo að finna mér vindil, mína litlu dömuvindla, og reykja einn úti á garðbekknum. Það var aldimmt svo ég kveikti á nýju garðljósunum sem upplýsa blómin svo fallega. Þegar ég horfði inn í eldsýtulogann þegar ég kveikti í vindlinum hugsaði ég með mér að þennan vindil reykti ég til heiðurs Sölva, afmælisbarninu mínu. Sat í þögninni og reykti heiðursvindilinn. Þetta var fullkomið kvöld til vindlareykinga úti í garði. Ég vona að kvöldið verði líka svona fínt þann 20. júni þegar Nói á afmæli. Þá fæ ég mér annan dömuvindil á garðbekknum og reyki til heiðurs honum.

Ég hef það fyrir venju að kíka á fréttir hjá mbl.is. Ég hef ekki þetta sama óbragð í munninum yfir mbl og margir sem ég þekki. Hrunið fór ekki inn í sál mína og heldur ekki Davíð Oddsson. Sennilega af því ég var fluttur til útlanda. En ég les mbl.is einu sinni á dag, stundum tvisvar, en ég hef furðað mig síðastliðnar vikur á öllum þessum greinum um búðina Costco. Það eru margar greinar á dag um þessa búð. Ég skil þetta ekki. Á mbl.is hlut í Costco og notar fréttamiðilinn til að auglýsa búðina, eða er þetta svo mikil stórtíðindi að þessa verslunarkeðja hefji starfsemi á Íslandi? Dularfullt.

Annars er stór dagur í dag. Síðasti skóladagur hjá Núma, sem byrjar svo í menntaskóla í haust. Síðasti dagur í grunnskóla er mikilvægur dagur. Svo mikilvægur að frá og með deginum í dag hefur Númi ákveðið að byrja að drekka áfengi. Það ákvað hann fyrir löngu, að bíða með áfengisneyslu fram á síðasta skóladag þegar krakkarnir fara saman inn í Bakken og fagna þessum áfanga. Þeir eru tveir í öllum bekknum sem ekki eru fyrir löngu byrjaðir að drekka. Númi fór í búðina í gær og keypti það sem heitir Breezer (2 flöskur með limebragði) og einn bjór. Hann hlakkar mikið til. Allur umgangur með áfengi hér í Danmörku mjög frjálslegur. Þegar ég var ungur maður laumaðist maður til að drekka og talaði ekki um það við foreldra sína. Í þeirra huga átti ungt fólk bara ekki að drekka áfengi.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.