Espergærde. Úr sálardjúpunum

Aukafrídagur. Ég mæti ekki til vinnu í dag. Enginn virðist mæta til vinnu hér í Danmörku, það er helgi í loftinu. Ég byrjaði daginn á jóga; jóga frá 08:00 til 9:30. Þótt mér finnist alltaf erfitt að koma mér af stað er nú svo komið að ég sé eftir að hafa ekki byrjað fyrr. Kroppurinn á mér er ánægður með þetta og er allur að mýkjast, þannig.

Hver jógatími endar á slökun og það er þá sem yfir mig sturtast allar þessar merkilegu hugsanir. Ef ég er þreyttur verð ég ógurlega viðkvæmur og allur á valdi tilfinningarólgu sem kemur einhvers staðar innan úr mér. Í morgun kom myndin af pabba mínum í hugann þegar hann lá síðustu dagana á sjúkrabeði og beið þess að deyja. Ég stóð yfir honum ásamt systkinum mínum. Í höfðinu gerðist allt í einu það að ég sá sjálfan mig í hans stað í rúminu og börnin mín yfir mér. Mér fannst erfitt að hugsa til þess að ég gæti ekki lengur passað börnin mín. Svona undarlegar hugsanir spretta upp úr undirdjúpunum þegar maður leggst niður eftir jógaæfingarnar.

ps. Jóga-Júlía mætti ekki í morgun. Hún svaf yfir sig.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.