Espergærde. Short cut

Hann hafði hattinn sinn á höfðinu og dró á eftir sér litla, rauða ferðatösku þegar hann kom gangandi eftir brautarpallinum í Espergærde með hinum lestarfarþegunum frá Kaupmannahöfn. Hann lyfti annarri hendinni til merkis að hann hafði séð mig og svo gekk hann glaðbrosandi til mín. Palli kominn til Espergærde.
„Eigum við að taka short cut í gegnum Lindevej,“ var eiginlega það fyrsta sem hann sagði eftir að hafa heilsað með virktum og við sestir inn í bílinn. Nú átti að sýna að hann var staðkunnugur.

Það var auðvitað stórfengur fyrir mig hér í útlöndunum að fá slíkan sómamann í heimsókn til að skemmta mér yfir helgina með sögum frá Reykjavík, bókabransanum og því sem á daga hans hefur drifið.

Í gærkvöld þegar stjörnurnar voru komnar upp á dimmbláan himininn sýndi ég Palla hvernig maður reykir vindil á garðbekk. Ég setti hann í jakka og svo settumst við á bekkinn. Ég tók fram fínustu vindlana frá Kúbuferð minni. Vindla frá því volaða landi Kúbu, en þrátt fyrir upprunann eru  þeir stórfínir. Ég held að við höfum verið hálfspaugilegir, við tveir, amatör vindlareykingarmenn á garðbekk. Þarna sátum við inn í nóttina með alfínan bjór bruggaðan af Jacobsen og spjölluðum í hálfum hljóðum svo við trufluðum ekki náttdýrin sem stóðu álengdar og fylgdust með þessum spekingum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.