Espergærde. Holger borðar einn banana

Fjögurra daga frí að baki. Ég er alveg til í fleiri frídaga. Svona er maður orðinn mikið lúxusdýr. Mér finnst bara gott að enginn reiknar með mér í vinnunni. Ég þarf ekki að svara fyrirspurnum og enginn krefst neins. Ég hef verið heima að lesa, sinnt gestum mínum og svo hef ég spilað tennis. Duglegi maðurinn, nágranni minn,  er alveg brjálaður tennismaður,  og leikirnir milli okkar eru banvænir. Við spiluðum tvisvar sinnum um helgina. Fyrst vann ég og það var svo stór gleði að ég sveif í marga tíma á eftir. Í gær tapaði ég, 90 mínútna langur leikur þar sem við spiluðum bara eitt sett.

Nú er ég sem sagt aftur sestur hér á kontórinn. Og mér verður hugsað til mannsins sem ég horfði í augun á um helgina. Holger. Marþonhlauparann sem ég kannast við. Hann var nýkominn í mark. Það var ekki mikið líf í þeim augum ekki frekar en í augum hins gríska félaga hans sem hljóp fyrsta maraþonhlaupið fyrir tvöþúsund árum til að færa Aþenubúum sigurfréttir áður en hann sjálfur hneig niður til að tapa lífinu. Holger lifði hlaupið af. En hann hafði ekki neinn boðskap að færa. Hann hafði ekkert sérstakt erindi við endalínunna. Hann vildi bara fá að vera í friði og jafna sig. Þótt marathonhlaupurum nútíms dreymi örugglega að færa okkur sigurboðskap er langhlaupið bara sjálfvalin þjáning, ofurmannlegt en tilgangslaust afrek.

Einhver læknir sagði að líkaminn bregst við maraþonhlaupi á sama hátt og þegar líkaminn verður fyrir vörubíl. Sennilega er það ekki sérlega hollt, þótt margir hlaupi 42 kílómetra í nafni betri heilsu.

Já, hann heitir Holger marathonhlauparinn sem ég mætti um helgina og hann byrjar hvern dag klukkan hálfsex. Það hefur hann sagt mér. Hann er forstjóri og hann fer snemma á fætur. Hann klárar nokkur smáviðvik áður en hann sest niður og borðar morgunmat með fjölskyldunni – hollan morgunmat með fáum kolvetniseiningum. Síðan klæðist hann hjólabúningnum sínum og hjólar um það bil fimmtán kílómetra til vinnustaðarins þar sem hann geymir jakkafötin sín á herðatré. Á hverju vori hleypur hann maraþonhlaup. Hann klifrar í fjöllum og í sumar tekur hann þátt í eins dags hjólreiðakeppni í La Marmotte, í hinum suðfrönsku Ölpum, þar sem hann hefur skráð sig til að hjóla 174 kílómetra í 5000 metra hæð. Hann hefur sagt mér að það eina sem hann lætur ofan í sig fram á kvöldmat sé einn banani.

Holger vaknar snemma. Holger hleypur. Holger hjólar. Holger borðar einn banana. Holger kemur þegjandi í mark.

dagbók

Skildu eftir svar