Espergærde. Nýi tannlæknirinn minn

Ho. Á skrifborðinu fyrir framan mig stendur kaffibolli með köldu kaffi. Ég hef gleymt að drekka kaffið því ég var svo niðursokkinn í að svara tölvupóstum frá því í nótt. Sumir sitja á dimmri og kaldri vornótt og skrifa mér e-mail. Slíkum tölvupóstum verður maður að svara hratt. Svo hratt að meira að segja kaffið gleymist og verður kalt.

Annars hugsaði ég með mér þegar ég hellti upp á nýjan kaffibolla (ég drakk auðvitað kalda kaffið, ég er ekki pjattaður) hvort ég ætti að prufa að hætta að drekka kaffi og fara yfir í tedrykkju. Þetta hvarflaði bara að mér en ég held  að ég setji þessa hugdettu ekki í framkvæmd.

Kannski datt mér þetta í hug af því ég var hjá tannlækni í gær. Ég braut nefnilega tönn í gin+tónik bátsferðinni þegar ég beit í gamalt rúgbrauð sem ég hafði gleymt í vasanum mínum. Tannlæknirinn, sem lagaði brotnu tönnina,  var ung og óreynd stúlka. Hún talaði við mig eins og ég væri barn að koma fyrsta sinn til tannlæknis. Hún var góð við mig.

„Nú kemur borinn, það verður ekki sárt.“
„Nú ætla ég að sjúga aðeins með þessu röri, sjáðu. Munnvatnið safnast nefnilega saman niður í hálsinum.“
„Eigum við að panta nýjan tíma til að taka almennilegt tékk. En þú ræður alveg sjálfur. Ef þú hefur ekki áhuga þá er það alveg í fínu lagi.“

Svona talaði hún fallega, nýi tannlæknirinn minn.

Nú á ég von á heimsóknum frá Íslandi. Bráðum koma Sölvi og Ingibjörg og verða hér í nokkra daga. Lúxus fyrir mig. Og svo koma Bogi og Linda mín í heimsókn í næstu viku. Þegar Palli var hér síðustu helgi vakti það athygli mína að hann hafði tvö íslensk handrit meðferðis, bæði eftir einskonar rappara. „Ég kalla þetta texta. Þetta eru ekki ljóð,“ sagði Palli um leið og hann setti annan handlegginn yfir brjóstið. Hin höndin fitlaði við skeggið á hökunni. Ég var feginn að Palli færði mér Íslensk öndvegisljóð valin af Páli Valssyni í einni bók þegar hann kom hingað til Espergærde, frekar en texta eftir íslenska rappara. Þótt þeir séu örugglega líka góðir.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.