Espergærde. Hanskaklæddi maðurinn

Það var töluvert um það í gær að hingað hefðu lesendur Kaktusins samband til þess eins að stríða mér á því hvað ég væri allur orðinn mjúkur; dömuvindlar, tedrykkja og jóga. Af þessu tilefni rifjaði einn bréfritari upp að þegar ég vann hjá bókaforlaginu Bjarti hafi ég einu sinni tekið á móti manni sem hefði boðið okkur ógalið verkefni. Manninum var boðið sæti niður í fundarherberginu. Svo á ég að hafa sagt:
„Má ég bjóða þér kaffi?“
Og maðurinn á að hafa svarað: „Nei, takk, en má ég biðja um kamillute?“
Eftir það var augljóst að ég hafði ekki áhuga á verkefni mannsins og á að hafa sagt að ég tryði ekki á verkefni sem stýrt væri af kamillute-manni. Það vantaði alla orku í slík verkefni.

Ég man þetta óljóst en getur vel verið satt. Svona er ég stundum vitlaus.

Eitt vor, ekki fyrir löngu, fengum við heimsókn frá einum af útlendum höfundum okkar. Það er krimmamessa á Jótlandi einu sinni á ári og höfundurinn kom í tilefni þeirrar messu í kynningarheimsókn til Danmerkur. Þetta var vinsamlegur maður og bókin hans mjög frambærileg. Það var þó eitthvað við hann sem truflaði mig, einhver vælutónn í honum sem ég var ekki alveg sáttur við. Allt var pínulítið erfitt og það var alltaf eitthvað svolítið að hjá honum. Hann var til dæmis gífurlega þreyttur eftir 5 klukkustunda langa lestarferð. Svo þreyttur að hann þurfti að fá tveggja tíma ró upp á hótelherbergi eftir túrinn. Hann var líka hörmulega ósjálfbjarga, endalaust að breyta ferðaáætlunum sínum til að gera lífið pínulítið meira þægilegt fyrir sig en töluvert meira óþægilegt fyrir þá sem þurftu að sinna þörfum þessa manns fyrir bómullarlíf.

En mér var öllum lokið þegar hann fyrsta morguninn í lobbýinu á hótelinu stóð og leit út í vorloftið og spurði mig hvort ekki væri kalt úti. Ég svaraði að það héldi ég ekki: „Það eru svona 8 eða 10 gráða hiti,“ svaraði ég.
„Já,“ sagði hann og stakk nefinu út í gegnum dyrnar, eins og til að mæla lofthitann. Svo tók hann fram fínlega leðurhanska úr frakkavasa sínum og setti á hendurnar áður en hann fór út í milt vorloftið. Ég held að ég hafi ekki getið leynt undrun minni og vantrú. Ég fann að þar á eftir nennti ég ekki þessum manni. Hann átti ekki sjéns hjá mér. Maður með leðurhanska, það var bara of pempíulegt fyrir mig. Svona er maður vitlaus. En nú er ég farinn að reykja dömuvindla og íhuga að drekka te í stað kaffis (ekki í alvöru) og farinn að stunda jóga, þannig að kannski fer ég líka bráðum að klæðast leðurhönskum.

ps. Mér varð hugsað til þess í morgun þegar ég vaknaði að sennilega, nei ekkert sennilega, það er lífsnauðsynlegt að efla barna- og unglingabókaútgáfu. Fá fleiri Harry Potter bækur út. Þróa höfunda sem vilja skrifa spennandi bækur fyrir börn. Ég held að það sé mikilvægt, nei ekki mikilvægt, það er lífsnauðsynlegt til að efla bókaútgáfu og ekki síður samfélagið. Fleiri barnabækur! Bókaútgefendur allra landa sameinist í útgáfu barnabóka. Yo.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.