Espergærde. Leið til að tjá sannleika

Ég var úrvinda þegar ég vaknaði í morgun enda var nætursvefninn ekki nógu langur. Þrátt fyrir það var ég fyrstur niður og byrjaði að undirbúa morgunmat fyrir fjölskylduna. Stundum kveiki ég á íslensku RÁS 1 og hlusta á morgunútvarp, eða öllu heldur næturútvarp, því klukkan er ekki einu sinni orðin 5 á Íslandi þegar ég byrja að hlusta. Stundum vel ég morgunútvarp hjá hinu danska DR1.

Ég opnaði dyrnar úr eldhúsinu út í garð og settist aðeins á bekkinn á pallinum, andaði að mér morgunloftinu og hlustaði á söng fuglana. Gattuso sest við hliðina á mér. Þarna sátum við, bara í fimm mínútur með kaffibolla, og vöknuðum aðeins betur.

Morgunmaturinn var tilbúinn þegar Sus kom niður. Hún leit á mig og sagði: „Æ, Snæi, det holder ikke. Du er godt nok træt.“ Og sennilega hefur hún rétt fyrir sér, det holder ikke. Ég set mig í of mikla pressu. Ég er með tvær bækur sem ég  les í kapphlaupi við hin dönsku forlögin, ég er með eina íslenska bók sem ég vil klára að lesa um helgina og svo sest ég alltaf niður klukkan níu á kvöldin og þýði þar til ég lognast út af, oft seint um nótt. Fyrir utan allt stússið með að halda forlaginu gangandi. En mér finnst þetta skemmtilegt. Mér finnst gaman að þessu bókastússi.

Í nótt þegar ég sat einn yfir þýðingu minni – ég hafði kveikt garðljósin sem lýstu trén fyrir utan gluggan svo fallega upp – kom tölvupóstur frá Íslandi. Einn af mínum ágætu vinum sendi næturbréf þar sem hann fjargviðrast yfir svartsýni í öðrum pennavini mínum sem telur hina íslensku bókaútgáfu eigi ólifuð um það bil 10 þjáningarfull ár.

„…bókmenntirnar og bókarformið verða það sem þær í raun og sann eru: Eina almennilega leið mannsins til að tjá einhvern sannleika sem skiptir máli, eina raunverulega aðferðin til að eiga einhvern sjens í að skilja manneskjuna og stöðu hennar í heiminum.“ Ég er alveg sammála og ég vildi að fleiri hefðu áhuga á að uppgötva þetta tjáningarform.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.