Espergærde. Síminn í aðalhlutverki

Mér brá aldeilis í morgun. Í dag er miðvikudagur og þá leyfi ég mér að njóta þeirra forréttinda sem sjálfstæður maður að fara í jóga klukkan 7:45. Ég tek ekki símann með mér, ég nenni ekki að hugsa um síma á meðan ég stíflappast í jóga. (Ég fylgist með því hvernig börnin mín, bæði lítil og stór, verða meira og meira háð símunum sínum. Aldrei friður fyrir síma. Alltaf að kíkja á skjá. Þetta hefur eflt mig í að gleyma símanum mínum, hlaða hann ekki, setja hann til hliðar og þegar ég á tóma stund þá leita ég ekki að símanum mínum. Ég gef oftar og oftar skít í símann minn. Mér finnst að ég hafi komist að þeirri niðurstöðu að ég fái í raun og veru ekkert út úr símaglápi mínu annað en óróleika. Einbeitingarleysi. Nóg um síma sem ég held, held?, nei ég veit, ég er handsviss um, að  hið eilífa símagláp sé að skemma einbeitingarhæfileika fólks. Fólk getur varla einbeitt sér lengur en í 5 mínútur án þess að fá sitt símafix.)

En sem sagt, ég gerði mínar jógaæfingar undir styrkri stjórn sólargeislans Serpils. Mér finnst ég taka framförum. Og nú er svo komið, segi ég enn og aftur, að ég sé eftir að hafa ekki byrjað fyrr á jóga. Þá hefði ég verið betri fótboltamaður, betri tennisspilari og það er mikilvægt fyrir mann eins og mig. Yo. En klukkan 9 var ég búinn í jóga og ég flýtti mér heim í sturtu áður en ég hljóp upp á skrifstofu með samviskubit yfir að hafa ekki verið í vinnu. En greip símann minn á leiðinni út og sá að einhver hafði reynt að hringja í mig átta sinnum í morgun. Átta sinnum! Og númerið var algerlega ókunnugt og útlent. Ef einhver hringir í mann átta sinnum hlýtur þeim sama að liggja eitthvað mikið á hjarta. Mér var brugðið. Ég fletti upp frá hvaða landi símtalið gæti komið. 00562 er forvalið fyrir Chile! Ég þekki engan á ferðalagi í Chile. Eða hvað? Í huganum fór ég yfir alla þá sem ég þekki sem hugsanlega gætu verið í Suður-Ameríku en mér datt enginn í hug.

Ég ákvað bara að láta sem ekkert væri og bíða eftir næsta símtali.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.