Espergærde. Tannlæknir, rithöfundur & rasssíður leigubílsstjóri.

Ef allir rithöfundar væru fyrrum blaðamenn og vel tengdir inn í kreðsu starfandi blaðamanna þyrftu bókmenntirnar ekki að kvarta undan skorti á umfjöllun. Það er ekki bara á Íslandi að vinaböndin og kunningsskapurinn getur komið að góðum notum. Það gildir líka hér í Danmörku. Ég tók eftir því í morgun þegar ég las JyllandsPosten og Politiken að ágætur maður sem ég þekki vel, Jesper Stein, fær þessa líka grand umfjöllun í báðum blöðum. Jesper hefur gefið út fimmtu bók sína í krimmaseriu og bókin kemur út í dag. Jesper á langan feril að baki sem blaðamaður, menningarblaðamaður. Og það hjálpar við að fá athygli dagblaðanna. Opnuviðtöl, ritdómar á útgáfudegi og auk þess hafa birst smámolar um væntanlega bók hans síðstu vikur. Þetta er bara ábending til verðandi rithöfunda: fyrst að vinna fyrir fjölmiðla og svo skrifa bækur.

Ég er á leið til tannlæknis klukkan 9:15. Ég hef VISA-kortið mitt með. Ég hef burstað tennur, vel og vandlega. Ég hef skipulagt gönguleiðina frá skrifstofunni, þar sem ég sit nú, til tannlæknisins. Skóna hef ég pússað og ég notaði sjampó, sem ég annars nota aldrei, frá adidas í morgun. Það lyktar eins og flestir karlmenn lykta. Sjampóið fékk ég ofan í íþróttatöskuna mína í gær frá fótboltafélaga mínum (hann hefur ruglast á íþróttatöskum.)

Í gær, í roki og regni, spilaði ég kappleik í fótbolta á móti Galaxy FC (sem er lið tyrkneskra leigubílstjóra frá Kokkedal). Það var ekki mikil mótstaða hjá hinum tyrknesku, þeir hafa setið of lengi inni í leigubílunum sínum, þeir voru rassþungir og áttu ekki séns í okkur. 6-1 fyrir IFEspergærde. Yo.

Ég sat fram á nótt við vinnu eftir kappleikinn. (Ég borðaði fyrst þrjár rúgbrauðssneiðar eftir leikinn). Á meðan ég sat við eldhúsborðið og einbeitti mér að verkefnunum kom stutt SMS frá gömlum félaga: „fann gamalt bréf frá þér, skrifað á ferðum þínum um Belgíu. Það voru ævintýri maður.“ Ég glotti með sjálfum mér. Ég man ekki eftir ferðalagi um Belgíu.

ps. Í dag ætla ég að tala rosalega mikið um ísskápa, gerðir og stærðir í viðurvist símans míns. Ég heyri aftur og aftur að fólk trúi því að Google hleri samtöl fólks og sendi svo hinar réttu auglýsingar á mann á eftir. Tilraun mín gengur út á hvort Google sendi mér ísskápaauglýsingar í dag eða næstu daga.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.