Ég hef mikið verið að spekúlera hvort ég ætti að taka þessa dagbók af netinu. Það er að sumu leyti hemjandi að hafa dagbókina opinbera. Stundum get ég bara ekki sagt hvernig hlutirnir eru í raun og veru. Sum verkefni sem ég vinn að krefjast leyndar þar sem þeir sem ég vinn með krefjast þess að verkefni séu ekki gerð opinber og þeir sem ég er í samkeppni við mega ekki komast á snoðir um fyrirætlanir. Því get ég stundum ekki annað en talað í hálfum vísum sem pirrar mig.
Svo fæ ég símaupphringingar og tölvupósta frá vinum mínum, samstarfsfólki, hinum og þessum og það segir oft, með þungri áherslu, að ég megi ekki segja frá þessu á Kaktusnum. Ég má alls ekki nefna nöfn þeirra. Allt þetta setur skorður á skrif mín en ég get ekki bara sleppt því að minnast á það sem fyllir daga mína, tekur pláss í heilastarfsseminni. Það væru svik við sjálfan mig, að falsa dagana, láta sem þau verkefni sem ég vinn að séu ekki til.
Á hinn bóginn finnst mér mjög uppliftandi að vera í sambandi við fólk á Íslandi (ég skrifa á íslensku, yo!) sem les dagbókarskrif mín og gefur sér tíma til að kommentera, skamma mig eða klappa mér á bakið. Var einmitt rétt í þessu að fá tölvupóst frá einum af mínum frábæru vinum: „Ég er búinn að vera á leiðinni til þess að skrifa þér kveðju alla vikuna, fylgist nærri daglega með þínu lífi eins og það endurspeglast á kaktus, jarðarkaupum, jógatímum, garðstússi og lestri… Ég las færslu þína um facebook, var sammála öllu…” Fyrir Íslending í útlöndum gleðja svona kveðjur sérkennilega mikið og það er einmitt þetta samband sem maður myndar (og viðheldur) við fólk, bæði vini, fjölskyldu og aðra sem ég þekki minna, sem veldur því að gaman er að hafa Kaktus-dagbókina á netinu. Því verða menn að afsaka hinar hálfkveðnu vísur, það er alls ekki gert til að sveipa líf mitt dulúð eða tilbúinni spennu.
Mér fannst mjög skemmtilegt þegar einn af mínum góðu vinum sem ég hef þekkt frá því ég var barn sagði allt í einu: „Mér finnst eiginlega ég þekkja þig betur af að lesa Kaktusinn.“