Reykjavík. Bekkjaverkefnið

Það er ekki hægt að segja annað en að Reykjavík sé falleg þegar sólin skín. Ljótasta höfuðborg Evrópu verður bara fín í sólinni. Í morgun gekk ég með Öglu litlu niður á leikskólann hennar á Ægisíðu. Hún brunaði áfram á hjólinu sínu, stolt yfir að geta sýnt fávísum afa sínum leiðina á leikskólann, ég hljóp á eftir, glaður eins og kálfur í sólskininu.

Ég er með pínulítið verkefni, ef mér leyfist að minnast á það. Verkefnið, bara smáskemmtiverkefni, gengur út á að taka myndir af útibekkjum. Bekkir í borgum eða sveitum í heiminum er viðfangsefnið. Myndirnar tek ég af því að mér hefur alltaf þótt svo gott að sitja á bekkjum. Að sitja á kyrr á bekk er góð sekmmtun, góð leið til að finna fyrir eigin gleði, jafnvel eigin hamingju ef maður er hátíðlegur. Það leggst yfirleitt ró yfir mig þegar ég gef mér tíma til að setjast á bekk. Í morgun fékk ég nóg að gera því það eru fjölmargir bekkir á Ægissíðu. Hér kemur ein mynd af bekk. Þessi bekkur snýr í áttina að sjónum.

IMG_9785
Bekkur á Ægissíðu, Reykjavík, Ísland.

Á Kaffi Vest í morgun hitti ég Jón Karl. Jón Karl, minn gamli samstafsmaður og stórvinur, er alltaf uppspretta skemmtilegra og uppörvandi samtala. Allt verður svo áhugavert. Við tölum saman í alvöru. Samtalið í morgun var engin undantekning. Hann sýndi mér m.a. handrit að bók sem hann telur höfða stórkostlega mikið til mín og eftir hádegi fæ ég handritið sent frá höfundi. Ég hlakka til.

Það er ólýsanleg skemmtun að heyra um verkefnin sem Jón Karl vinnur að með vinum sínum í útlöndum. Mér finnst þau stórkostlega heillandi, blanda af bókmenntum, stærðfræði og tölvuvísindum. Ég verð alveg trylltur.

Ég kláraði að lesa bók Bergs Ebba, Stofuhiti í flugvélinni frá Kaupmannahöfn. Það er gaman að lesa Berg Ebba. Hann er skemmtilegur og léttruglaður sem eykur bara á fjörið við að lesa bókina. Mér finnst fyrri hlut Stofuhita enn betri en sá síðari en sennilega var ég bara orðinn þreyttur á að lesa um hugmyndir Bergs. Á sama hátt og manni finnst flugeldasýning alltaf skemmtilegust svona í blábyrjuninni. Eftir því sem líður á sýninguna hætta góðir flugeldar að heilla á sama hátt og fyrstu raketturnar. Bergur Ebbi er með glæsilega flugeldasýningu og bomburnar sem hann sendir af stað upp í geiminn eru bæði litríkar og háværar. Held bara að þetta sé það besta sem ég hef lesið af yngri höfundum í ár.

ps. Mér var boðið á landsleikinn í fótbolta í gær. Ekki leiðinlegt!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.