Er á leið heim frá New York eftir vel heppnaða ferð með mínum góðu vinum: Þorsteini J. (TJ), Einari Fali (Effa) Páli Valssyni, Magga Ásgeirs og Jóni Kaldal. Svo slóst Villi Vill í hópinn. Að eiga slíka vini er ekkert annað en ómetanlegt. Ég sit nú á JFK flugvellinum þar sem ég fer heim á undan hinum. Þeir verða eftir í NYC fram á sunnudag. Ég ætla hvorki að eyða mörgum orðum um vinskap okkar eða ferðina. Hvort tveggja fær toppeinkun. Sjö komma fimm eins og maður segir á mínu heimili.
Ég er auðvitað hálfleiður yfir að hafa ekki getað skrifa almennilega dagbók á meðan verunni stóð, en ég hef bara ekki haft stund aflögu til þess. Við höfum verið á ferðinni frá morgni til kvölds, allir með erindi, stundum í hóp og stundum í pörum og stundum sóló. Aðdáendur Juliu Kristevu geta reynt að greina þennan hóp og atferlismynstur hans. Ég get bara sagt að ég hef verið í mörgum karlaferðum og veit hvað slíkar ferðir geta verið klisjulegar og leiðinlegar. Með þessum drengjum er ferðalag ekkert nema gleði. Ekki meira um það.
Ég er á flugvelli New York búa, JFK. Ekki hressandi flugvöllur og flest á lægsta plani (sjá mynd af ömurlegri máltíð). Hér er ekki hægt að fá neitt af neinu viti að borða. Hér eru veitingar bæði dýrar og af lélegustu gæðum. Ég hefði átt að fá mér eitthvað að borða inni í borginni, það hefði verið betra, en ég var of stressaður af koma mér af stað þar sem ég vissi ekki hversu þétt umferðin út til JFK væri.

Í nótt er ég á Íslandi og flýg áfram til Kaupmannahafnar og verð kominn til Kastrup klukkan 06:00.
Las ágæta færslu Eiríks Arnar Norðdal um menningarumfjöllun. Ég var sammála honum í sumu. Ég hugsa oft um stöðu bókmenntaumfjöllunar í heiminum og kannski sérstaklega á Íslandi. Því miður getur maður ekki sagt annað en flest sé á niðurleið bæði á Íslandi og í Danmörku þar sem ég þekki. Bæði er umfjöllunin minni og óáhugverðari. Fagurfræðileg viðmið eru fá ef einhver og þessi sérkennilega árátta að gefa litlum spámönnum, byrjendum eða hæfileikaminni höfundum eins konar forgjöf, eins og í golfi, finnst mér handónýt aðferð. Byrjendur og hinir slappari fá að jafnaði um það bil 2 stjörnur í forgjöf (ef við einföldum og notum stjörnur). Þannig að byrjendaverk og verk eftir minni spámann sem ætti eftir öllum leikreglum að fá 1 stjörnu fær 3 stjörnur. Þetta er svo þreytandi og eyðileggur alla vitræna menningarumfjöllum. Það sama má segja í myndlist þar sem umfjöllun hefur engan grunn að byggja á. Allt er svífandi og allt er jafngott eða jafngilt. Ekkert er lengur gott eða lélegt. Auðvitað eyðileggur þetta alla listaumfjöllun.
Það er helst að leiklistarumfjöllun hafi enn einhvern vitrænan grunn. Þar getur maður þakkað Jóni Viðari margt. Honum hefur tekist að sumu leyti að hefja sig yfir forgjafakerfið, og tala með sinni eigin rödd og beita sínum skýru fagurfræðilegu forsendum sem viðmið þegar hann fjallar um leiksýningar.