Espergærde. Þung gleraugu

Í dag er 18. júni, dagurinn eftir 17. júní sem einhvern veginn fór alveg framhjá mér. Ég gerði ekkert sem minnti mig á Ísland eða fagnaði þjóðhátíð á meðvitaðan hátt. Ég gladdist þó mjög yfir gærdeginum. Ég dásamaði danska sumarið sem var eins og það gerist best; með sól og blíðum andvara.  Í dag, 18. júni, eru nákvæmlega 89 ár frá því að flugmaðurinn Amelia Earhart flaug, fyrst kvenna, yfir Atlantshafið. Ég hef heldur ekki minnst þessara tímamóta. Amelia lenti heil og ósködduð í höfninni í Burry í Wales sem var mikið afrek. Tilraun hennar til að fljúga hringinn í kringum jörðina árið 1937 endaði ekki jafnvel. Hún flaug af stað en hvarf á leið sinni og fannst aldrei aftur.

Annars er ég ekki maður sem alltaf er að hugsa um hvað konur geta, gera, mega, afreka, eða eru valdar til eða flokkaðar frá í samanburði við karla. Slíkum vangaveltum hef ég aldrei haft gaman að. Sumt fólk sér heiminn í þessum samanburði milli kynjanna. Slík gleraugu hljóta að vera bæði þung að bera á nefinu og þrengja sýnina á veröldina umtalsvert.

Þegar ég var á Íslandi fékk ég, mér til mikillar gleði, sent handrit að bókum eftir tvo unga höfunda. Annað handritið er eftir Jónas R. Gunnarsson og er væntanlegt á bókarformi í haust. Áhugamenn um íslenskar bókmenntir geta látið sér hlakka til þessarar bókar því hún er ansi vel samansett. Viðfangsefnið höfðar kannski ekki beint til mín eða minnar kynslóðar – sennilega talar bókin til yngri lesenda – en ég get vel séð að bók þessa unga manns gæti orðið ein af óvæntari sölubókum haustflóðsins. Ég ætla ekki að segja margt um söguefni bókarinnar, ég er ekki viss um að höfundur yrði hrifinn af því, en ég get vel sagt að hér er sérstaklega gott byrjendaverk á ferð. Söguröddin er sannfærandi og framvindan er áhugaverð og spennandi. Ungi maðurinn, Jónas, þarf enga forgjöf á hinum íslenska bókamarkaði, hann stendur sjálfur, einn og óstuddur, fullkomlega undir öllu því lofi sem hann á eftir að uppskera fyrir bók sína.

Hin bókin sem ég las á leið minni til Bandaríkjanna í síðustu viku var barnabók, eða jafnvel unglingabók, sem annar ungur höfundur sendi til mín. Höfundurinn bað mig að láta ekki nafns síns getið; ég kannast ekki við að hafa heyrt nafnið fyrr. Skáldið hafði lesið í Kaktus-dagbókinni áhuga minn á nýjum höfundum og  á framförum í íslenskri barnabókaútgáfu og af þeim ástæðum sent mér handritið. Þetta er ekki löng bók en óvenju ánægjulegur lestur; gaman að lesa svo metnaðarfulla og skemmtilega barnabók. Hingað til hefur mér fundist vanta metnað í íslenskar barnabækur. Þessar tvær bækur, sem ég las á ferð minni til New York, eru þær bestu sem ég hef lesið af þeim handritum sem ungir höfundar hafa sent mér hingað til Danmerkur. Ég var mjög upplyftur eftir þennan lestur og ég vona að ég eigi eftir að fá fleiri slík handrit.

Ég er líka enn mjög á lofti eftir tónleikana með Nick Cave í New York. Ég hef haft mörgu að sinna eftir að ég kom heim en hef notað tímann til að ganga um með headphona og hlustað á hljómleikaupptökur með Cave á meðan ég vinn önnur verk. Að hlusta á Cave nú er enn skemmtilegra eftir að hafa séð  hann og þessa ótrúlega færu hljómsveitarmenn á sviði.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.