Espergærde. Með forlagsjakkann á stólbaki

Ég er ekki alveg kominn aftur í takt með dagbókarritun. Í marga mánuði var mjög stabíll, byrjaði hvern morgun á að færa í dagbókina. En í New Yorkferðinni kom rót á rútínuna, ferðalag og sambýli með 6 mönnum kom í veg fyrir ró yfir dagbókinni. Ekki veit ég hvort það er sólin og sumarið sem setur mig núna svona úr takti eða ferðalög mín? Í morgun byrjaði ég á að spila tennis klukkan 7 og var  búinn að verða hálfníu. Klukkan níu átti ég að vera hjá tannlækninum. Elskulegri konu sem leggur sig alla fram um að mér líði vel í tannlæknastólnum og sé ekki hræddur við borinn. Hún hælir mér líka fyrir ró og jafnlundargeð.

Ég hitti Eirík Guðmundsson um daginn. Hann var hálflasinn kallinn, en nógu hraustur til að þyggja eitt hvítvínsglas á meðan við spjölluðum saman. Eiríkur stríðir mér á því að eftir að ég flutti út fyrir landssteinana sé ég farinn að brúka óþarflega mikinn kjaft. Ekki veit ég hvort svartklæddi útvarpsmaðurinn hefur rétt fyrir sér, ég efast um það. Þetta var í heimsókn minni til Reykjavíkur í síðustu viku.

Ég hitti líka Jón Kalman í hádegi niður á KEX-i, í sömu ferð. Við sátum svo lengi að ég var næstum búinn að gleyma að sækja Öglu á barnaheimilið. Áður en ég vissi af vorum við búnir að að sitja í nærri fjóra tíma, drekka fjóra bjóra og gleypa heilan hamborgara. En þeirri stund var svo sannarlega vel varið. Ég kann alltaf betur og betur að meta mína góðu vini. Maður tínir þá ekki á trjánum, vinina.

Það var aldeilis staðfest í hópferð minni til New York með leikfélögunum. Palli, Kaldal, TJ Þorsteinn J., Maggi Ásgeirs, Einar Falur. (Magga Guðmuds og Eiríks var auðvitað sárt saknað.) Allt eru þetta einstakir höfðingjar og forréttindi að þekkja þessa menn.

Þessi vika er sú síðasta áður en ég skipti tímabundið um starf; hengi forlagsjakkann á stólbakið og smeygi mér í föt ólífubóndans. Á sumrin er ég alltaf ólífubóndi. Við leggjum af stað til Ítalíu á föstudag. Verðum fyrst í húsi með sundlaug í Toscana, rétt við bæinn Fiatone. Þar vorum við líka í fyrra. Að þeirri viku lokinni keyrum við niður til litla ólífulundarins okkar í Vico del Gargano og verðum þar í fjórar vikur og klöppum ólífutrjánum. Þaðan brunum við í norðurátt, til Charmonix. Stoppum þar í viku (ætli við gerum það ekki að tennisbúðum) og svo aftur heim til Espergærde. Nice. Við sjáum til hvort ég nenni aftur í forlagsjakkann eftir fríið. Yo.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.