Espergræde. Lengri en lengsti dagur ársins

Byrjaði daginn á jóga hjá Serpil, jógakennaranum glaða. Nú tek ég frí frá jógatímunum þar til í ágúst þegar ég kem aftur til Danmerkur. Ég hef hugsað mér að reyna að gera jógaæfingar bæði í Frakklandi og á Ítalíu. Það krefur að sjálfsögðu sjálfsaga, sem ég reyni að temja mér. Jóga er gott fyrir kroppinn. Ha?

Annars er eitt af stærri vandamálum mínum þessa dagana spurningin um hvað ég eigi að taka með mér af lesefni í sumarfríið. Ég hef hugsað mér að lesa Ástkonu franska lautinantsins aftur og Spámennina í Botnleysufirði í íslenskri þýðingu Jóns Halls. Las fyrstu 150 síðurnar í fluginu heim frá New York og ég er gífurlega ánægður með þýðinguna hans Jóns Halls. Ég vildi að ég væri jafngóður textamaður og Jón Hallur. Þetta er í blóðinu á honum.  En hvaða aðrar bækur ég á að taka með mér? Mig langar að lesa eitthvað á íslensku. Ef einhver hefur góða tillögu hlusta ég með opin huga.

Ég þarf líka að finna góða hljóðbók á dönsku sem við getum hlustað á þegar við keyrum suður Evrópu. Í bílnum höfum við hlustað á gervalla Harry Potter seríuna (stórkostlegur lestur), Greifan af Monte Christo (sem var frábær lestur), Don Quixote, Skytturnar þrjár (frábær lestur), Gamlingjann sem skreið út um glugga og hvarf (frábær lestur), Maður sem heitir Ove, Drekahlauparinn, allar bækur Ole Lund Kirkegaard.  Hvaða bókum getum við bætt við þetta?

Ég þarf líka að endurbæta playlistann okkar. Það er ekki létt verk að finna tónlist sem allir í fjölskyldunni eru ánægðir með. 11 ára og 15 ára drengir hafa svolítið annan smekk en við foreldrarnir. (Og við foreldrarnir höfum alólíkan smekk). Playlistinn er málamiðlun: á honum eru m.a Tracy Chapman, Björk (af Gling Gló plötunni), David Bowie, Gilbert O’Sullivan (Alone again), Leonard Cohen (uppáhald Sus), Nick Cave, Marvin Gaye, Radiohead, Frank Sinatra, Bítlarnir, Bee Gees, Tom Waits (Alice), Pink Floyd, Oscar Peterson, Buika, Agnes Obel, Placebo, Bubbi (Stál og hnífur), Ellen Kristjánsdóttir, Spilverk þjóðanna (Icelandic Cowboy), Paolo Conte, Hljómar (Bláu augun þín og Þú og ég)… listinn er miklu lengri, lengri en lengsti dagur ársins. Yo.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.