Fahrenzhausen. 1100 km seinna

Sit á hóteli í pínulitlum bæ, Fahrenzhausen, rétt utan við München. Það er komið kvöld og bæði Sus og Davíð eru lögst til að sofa en við Númi sitjum enn uppi. Númi hlustar á músik en ég sit við skrifborðið með kveikt á tölvunnni. Á stéttinni fyrir utan gluggann minn á fyrstu hæð stendur stór, glymjandi og upplýstur gosbrunnur. Vatnsniðurinn er eiginlega ekki notalegur. Hótelið ódýrt og tilgerðarlítið í gömlu húsi með stóra kornakra í bakgarðinum. Ekki er hægt að hrósa matnum, því miður. En ég fer samt ekki svangur í háttinn.

Við erum búin að bruna 1100 km í dag eftir þjóðvegum Þýskalands og Danmerkur og það syngur svolítið í hausnum á mér eftir alla keyrsluna. Við þurfum að fara snemma á fætur á morgun því framundan er 800 km keyrsla til Fiatone með viðkomu í Flórens þar sem við eigum stefnumót. Eftir að ég fékk FitBit armbandið sem mælir allt sem ég tek mér fyrir hendur, þar á meðal svefn, er ég svolítið hugsandi yfir því hvað ég sofi lítið. Meðaltal síðustu viku var 5 kls og 18 mín. Er ég orðinn svona gamall?

Þótt ég sé nú í pásu sem bókaútgefandi – í sumar er ég ólífubóndi – þá er ég haldinn ólæknandi atvinnusjúkdómi. Ég get ekki hætt að lesa um bækur, hugsa um bækur og velta fyrir mér bókmenntum sem listformi. Strax og ég var búinn að borða og spjalla við samferðafólk mitt tók ég fram tölvuna mína og fór að lesa bókahlutann í New York Times. Þar er yfirleitt alltaf eitthvað sem vekur áhuga minn. Áðan las samtal við rithöfundinn Emmu Straub um bækur í föstum dálki sem heitir By the book eða Eftir bókinni. Þar eru einu sinni í viku lagðar sömu spurningarnar fyrir höfunda sem eru í sviðsljósinu. Þetta er auðvitað bara lítill og saklaus samkvæmisleikur. Skemmtun fyrir áhugafólk.

Hvaða bækur liggja á náttborðinu þínu?

Hvenær lastu síðast bók sem þér fannst frábær? Og hvaða bók var það?

Hvað ræður því hvaða bók þú ákveður að lesa. Ritdómar, meðmæli frá vini eða eitthvað annað sem vekur forvitni?

Hvaða starfandi rithöfund – leikskáld, blaðamann, ljóðskáld, gagnrýnenda – dáir þú mest.

Hvenær er best að lesa?

Hver er eftirminnilegast bókagjöf sem þú hefur fengið?

Hvaða bókmenntapersóna er í mestu uppáhaldi?

Hvers konar lesandi varstu sem barn?

Ég prufaði einu sinni að senda svipaðan spurningalista á þekktan, útlenskan rithöfund sem ég gaf út  fyrir nokkrum árum og vildi nota svörin hans á heimasíðu forlagsins og jafnvel fá eitthvað af dablöðunum í Danmörku til að birta spurningarnar og svörin. Ég fékk hrikalega dónalegt svar frá höfundinum. Það var svo leiðinlegt og úrillt að ég nennti ekki að gefa fleiri bækur út eftir höfundinn. Öll gleðin var farin úr samskiptum okkar. Hann varð líka fúll yfir því að ég hætti að gefa hann út. Ég held að höfundurinn sé nú öllum gleymdur. Leiðindaseggir gleymast stundum.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.