Hingað er ég þá kominn. Í hús í Tocanahreppi á Ítalíu og hér er sundlaug. Eftir rúma 800 km keyrslu frá München endaði ég hér. Það syngur enn í hausnum á mér þótt það séu nú fimm klukkustundir síðan ég kom. Lars og Pia, vinir okkar, tóku á móti okkur og voru búin að kaupa kvöldmat. Ég er sem sagt búinn að borða fínasta pastarétt og nú eru allir farnir að sofa enda þreyttir eftir ferðalag dagsins. Hér úti á verönd í þögninni, undir stjörnubjörtum himni, er fínt að fá sér vindil og grappa og skrifa dagbók dagsins.
Ég hef verið á námskeiði í að skrifa metsölubók hjá hinum ágæta manni James Patterson. Hann vill endilega að ég læri að skrifa metsölubók, honum finnst það sjálfum svo einfalt enda hefur hann selt milljónir bóka án þess að hafa of mikið fyrir því. Niðurstöðu námskeiðsins flyt ég lesendum Kaktusins. Ég sel þessi ráð ekki dýrari en ég keypti þau.
1. Skrifaðu eina síðu á dag
Ein síða er um það bil 200 orð. 200 orð gera 1000 orð á viku (fimm daga vinnuvika). Eftir tvö ár eru orðin nógu mörg til að fylla eina skáldsögu.
Ekkert gerist fyrr en þú hefur skrifað að minnsta kosti eina síðu á dag.
2. Ekki byrja á fyrstu setingu bókarinnar fyrr en þú veist hvernig síðasta sena bókarinnar endar.
Það er nauðsynlegt að nota hið hræðilega hjálpartæki: að plotta upp útlínur sögu. Mér skilst að nær allir rithöfundar hati þetta hjálpartæki. Og hingað til hef ég ekki hitt neinn höfund, nema Yrsu Sigurðardóttur, sem viðurkennir að draga upp útlínur sögu áður en sjálf sagan er skrifuð. Hún segist nota Excel og hefur að launum uppskorið bæði háð og spé.
Að úthugsa plott krefst bæði skipulagsgáfu, þaulsetu og þolinmæði. Margir höfundar eyða árum í að reyna að skrúfa saman sögu á innsæinu einu saman en á endanum reynist sagan stundum handónýt. Útlínugerð hefði hjálpað.
3. Skrifaðu síðu dagsins á sama stað og á sama tíma
Snemma morguns, í hádeginu, í strætó, á kaffihúsi, seint um kvöld. Það skiptir ekki máli. Finntu stund aflögu og lokaðu að þér.
Og á hverjum degi og engar afsakanir.
4. Ekki skrifa formála
Margir nota formála til að fanga lesendur. Þetta er slappt trikk. Slepptu formála. Leggðu útlínur sögunnar (sjá númer 2) og byrjaðu á kafla númer 1.
5. Notaðu gæsalappir þegar þú skrifar samtöl
Vinsamlegast gerðu þetta. Þetta er grundvallaratriði.
6. Hafðu orðabókina utan seilingar
Ég veit að flestir höfundar hafa orðabókina við hlið sér.
Það eru til þrenns konar orð. (1) Orð sem allir þekkja. (2) orð sem við ættum að þekkja (3) orð sem enginn þekkir og enginn notar. Gleymdu orðunum í þriðja flokknum og takmarkaðu notkunina á orðum í flokki númer tvö.
Algeng mistök byrjenda er að nota sjaldgæf orð sem bæði geta virkað hallærislega og tilgerðarlega.
7. Lestu hverja setningu þrisvar sinnum, að minnsta kosti, í leit að orðum sem mega missa sín.
Flestir höfundar skrifa of mörg orð. Það er auðvitað ótakamarkað pláss og fáar takmarkanir sem bókaarformið hefur.
8. Ekki kynna tug persóna í fyrsta kafla
Þetta eru algeng byrjendamistök. En lesendur eru ákafir að byrja að lesa sögu. Ekki skjóta þá niður með nafnasúpu fjögurra kynslóða sömu fjölskyldu. Fimm nöfn er ágæt byrjun.