Fiatone, Ítalía. Er Gattuso einmana?

Ég svaf óvenju lengi. Sólin var komin hátt upp á himininn og fuglarnir löngu byrjaðir að syngja þegar ég drattaðist á fætur. Ég veit ekki hvað ég er að hugsa.

Ég ætla í mína brekkugöngu á eftir, í fyrra hljóp ég á hverjum degi og Lars hjólaði en nú vill Lars ganga svo ég geng með honum. Við göngum saman. Númi hljóp áðan, upp og niður og kom til baka kófsveittur og logandi eftir hlaupið. Það er heitt úti örugglega 32 gráður og það er ekkert grín að hlaupa upp 3,5 km langa brekku. Það man ég frá því í fyrra.

Í kvöld ætlum við að baka pizzur í pizzaofninum sem stendur hér fyrir utan. Þetta er góður pizzaofn. Við erum 10 í húsinu og því verða bakaðar 10 pizzur. Í dag er svo gott veður að ég ætla ekki að sitja yfir þýðingu í dag eins og ég hafði eiginlega ætlað mér. Leggst frekar við sundlaugarbakkann og les Spámennina í Botnleysufirði.

Húsið okkar í Espergærde stendur nú tómt. Enginn heima nema kötturinn Gattuso sem fær heimsókn frá nágrönnum okkar tvisvar á dag. Ég hef smááhyggjur af honum. Hann er svo mikil félagsvera hann Gattuso. Ætli hann sé einmana? Á morgun taka Palli og Nanna við húsinu og verða í Danmörku í þrjár vikur. Svo koma Sandra og co. eftir að Palli og Nanna eru farin heim. Gattuso ætti því ekki að verða einmana.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.