Fiatone, Ítalía. Samskipti á veitingahúsi

Í gær læddist ég á kaffihús niður í bænum hér neðar í hlíðinni. Mér til undrunar var hvert borð setið, nema eitt út við gluggann og þar settist ég. Ég pantaði mér kaffibolla og velti fyrir mér hvort gestir kaffihússins væru heimafólk eða ferðamenn. Mér heyrðust flestir tala ítölsku.

Ég fylgdist með barþjóninum skenkja í glös og hella upp á kaffi. Þetta var brosmildur, ungur maður með þykkan, svartan hárlubba. Hann var kvikur í hreyfingum og stríddi samstarfsfólki sínu og hló heilbrigðum hlátri. Það var létt yfir staðnum, gleði í loftinu.

Svo opnuðust dyrnar að kaffihúsinu og inn kom hávaxin stúlka með sítt ljóst hár. Ég sá á viðbrögðum barþjónsins að hann hafði tekið eftir þessari fallegu, ungu konu sem gekk inn á barinn með þokkafullum hreyfingum. Ungi barþjónninn hafði ekki augun af stúlkunni.
„Einn cappuchino,“ sagði stúlkan og veiddi  peningaveski upp úr leðurtösku sem hún hafði á öxlinni.
„Einn cappuchino, yes, redda því,“ sagði barþjónninn með hressilegri röddu. „Má ekki bjóða þér eitthvað annað, eitthvað fleira.“
„Nei, takk,“ svaraði stúlkan.
„Nei, takk! Þú veist ekki hvað ég er að bjóða þér og þú segir bara hugsunarlaust, nei takk!“
Stúlkan horfði undrandi á piltinn sem strauk með ýktri heyfingu yfir hárlubbann og setti hárið bak við annað eyrað. Hún virti hann fyrir sér eitt augnablik og brosti svo til hans. „Nei, takk. Bara einn cappuchino,“ sagði hún og hló dillandi.  Ég sá að fleiri gestir kaffihússins voru farnir að fylgjast með þessum hressilegu samræðum við barborðið.
„Hvað er það sem þú vilt ekki þegar þú segir nei takk?“ Hann setti aðra höndina á mjöðmina og setti upp svip sem átti sennilega að vera ögrandi.
„Æ… einn cappuchino…  bara. Ef þú vilt bjóða mér eitthvað segðu þá hvaða tilboð þú hefur í huga.“ Hún hélt áfram með að telja smápeninga upp úr veskinu sínu og virtist hafa misst áhugann á hinum unga og skelegga dreng.
„Mitt tilboð er…“ Hann þagnaði eitt augnablik og leit á stúlkuna sem svaraði ekki augnatilliti hans. „Ertu að hlusta?“
„Já… bara… láttu það koma,“ sagði hún hálfáhugalaus í röddinni.
„Ég bíð upp á fimm stjörnu máltíð á …. (ég náði ekki nafninu á veitingastaðnum)…. ég skipti um föt og svo hittumst við þar klukkan hálfníu.“
„Æ, enn fallegt af þér, en ég er bara ekki svo svöng. Aktúallí ætlaði ég með kærastanum í kvöld til Lucca.“ Hún leit upp og brosti til hans. „Nennirðu að flýta þér smá með cappuchinoinn, ég hef ekki svo mikinn tíma.“
„Sjálfsagt!“

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.