Fiattone, Ítalía. Ísland hringir.

Í gær um hádegisbil hljóp ég upp brekkuna hér fyrir neðan húsið. Þetta er löng brekka og brött. 3,5 km löng og ég veit ekki nákvæmlega hversu brött. Þessa brekku hef ég hlaupið mörgum sinnum og tvisvar sinnum hef ég reynt svo mikið á mig í hitanum hér að ég hef kastað upp yfir vegahandriðið á leið minni upp. En ég var á hlaupum í gær og sólin skein ofan á skallann á mér. Hitinn var meira en 30 gráður og svitinn rann af mér eins og af feitum embættismanni í gufubaði. Og svo hringir síminn. Venjulega tek ég ekki símann við þess slags kringumstæður en ég sá að númerið var íslenskt og ákvað að svara þótt ég þekkti ekki símanúmerið.

„Halló.“ Þögn á hinum enda línunnar og ég var móður. „Allóóó,“ segi ég hressilega, nú hærra og ákvað að hlaupa áfram því ég mátti engan tíma missa. Ég var í kapphlaupi við tímann.
„Já, halló, þetta er <nafn> fréttamaður á Stöð 2.“
„Góðan daginn,“ sagði ég.
Og nú fóru margvíslegar hugsanir í gang. Hverju hafði þessi ágæti fréttamaður komist að? Allt í einu var líf mitt fullt af leyndarmálum sem alls ekki máttu vera á vitorði fréttamanns frá Stöð 2.
„Er þetta Snæbjörn?“
„Jeps, him speaking,“ sagði ég og veifaði til ímyndaðra áhorfenda.
„Já, sæll. Hvernig hitti ég á þig? Ertu í Danmörku?“
„Neips. Ég er staddur í litlu þorpi í norður Ítalíu. Ég er á leið suður.“
„Nú ertu ekki í Danmörku?“
„Nei, ég er bóndi á sumrin, ólíufbóndi á Ítalíu.“
„Ó. Ég ætlaði að tala um Harry Potter við þig. Það eru tuttugu ár síðan fyrsta Harry Potter bókin kom út. Ég vildi bara vita hvort þú værir til í viðtal?“
Ég fann léttinn. Harry Potter! Það var fínt umræðuefni, ég treysti mér að tala um Harry Potter við íslenska pressu. Saklaust umræðuefni. Meira en saklaust, því það er umræðuefni sem ég vil gjarnan nota tíma til að tala um. Ég veit ekki hvort allir gera sér grein fyrir hvað þessar bækur hafa haft gífurleg áhrif, bæði á mitt eigið líf og ekki síður á líf ótrúlega margra ungra lesenda. Þessar bækur hafa haft svo stórkostleg áhrif á lestrarvenjur ungs fólks í dag. Ég vona bara að það komi fleiri slíkar bækur sem eigi eftir að lyfta barnabókmenntum aftur upp í sömu hæðir og Harry gerði.
„Stórkostlegt,“ sagði ég. „Vandinn er bara að netsambandið hingað í smábæinn sem ég dvel í er ekki sérlega gott. SKYPE viðtal yrði aldrei gott.“

Ég hélt áfram að hlaupa, ég mátti engan tíma missa. „Prufaðu að finna Helgu, þýðandann. Hún er góður viðmælandi.“
„Halló, ég heyri ekki hvað þú segir.“
„Reyndu að hafa uppi á Helgu.“
„Halló, ég heyri ekki…. halló.“
„Reyndu…·
„Ég sendi þér skilaboð á messenger og kynni málið fyrir þér OK. Ég heyri ekki hvað þú segir… vertu sæll, ég sendi á messenger.“

Í stuttu máli kom ég mér hjá samtali um Harry Potter. Ég var hræddur um að tengingin væri léleg og þá er svo glatað að vera viðtali.

Ég er syfjaður nú. Langur dagur að baki. En ég hika ekki. Ekkert hik á mér. Ég þarf ekki að taka hlutina með hægð. Ég bruna. Og á morgun kemur nánari skýrsla.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.