Fiattone, Ítalía. Grunnur andardráttur

Merkilegt hvernig regn, þrumur og eldingar setja lífið á annan endann hér í Fiattone. Hingað til höfum við verið utandyra, úti við sundlaugina, gengið niður (og upp) brekkuna, legið í hengirúmi bak við hús, en í dag rigndi. Það voru læti í rigningunni, háværar þrumur og skjannabjartar eldingar. Allir héldu sig innandyra, spiluðu spil og lásu bækur. Ég var að vísu bundinn yfir tölvunni, það eru enn læti í vinnunni minni þótt ég sé kominn suður fyrir Alpa. Ég vildi að það væri meiri friður.

Það var líka eins og allir sem ég þekki, og líka þeir sem ég þekki ekki, héldu niður í sér andanum. Aðeins eitt mail í dag frá vinum og kunningjum. En það var líka fínt meil þar sem mér var klappað kumpánlega á bakið.

Palli sendi nokkur SMS og kvartaði undan kettinum  á Søbækvej, taldi hann illa uppalinn og trylltan.

Óróinn, í veðri, vinnu, hefur eiginlega lagst á sálina á mér. Ég er sjálfur orðinn órólegur og þrái að geta dregið andann djúpt. Það er eins og andardrátturinn sé grunnur og hraður. Nú þarf ég að taka mér taki og vera aðeins meira kúl.

Nú, í þessum skrifuðum orðum, var ég kallaður, óvænt, inn á baðherbergi til að berjast við sporðdreka. Kolsvartan og ógnandi. Ég hikaði ekki, tók skónna mína og barði sporðdrekann í hausinn. Þar með lauk þeirri viðureign.

Nú ætla ég upp að lesa. Ég  hlakka til. Næ kannski að róa mig aðeins niður.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.