La Chiusa, Ítalía.

Síðustu dagar hafa ekki verið neinir sérstakir unaðsdagar þótt ég eigi að heita í sumarfríi. Ég hef algerlega verið á nálum. Sofið illa, vaknað rennsveittur og setið stjarfur yfir tölvunni frá morgni til kvölds. Í dag keyrðum við frá Róm, eða frá litlum bæ í nágrenni Rómar, austur til Pescara og svo beint suður með austurströnd Ítalíu þar til við komum á áfangastað í Vico del Gargano. Eða nánara; lentum rétt fyrir utan smábæinn Vico del Gargano í húsi okkar í ólífulundinum. Þótt ekkert hafi í rauninni breyst í dag, ég er undir sömu pressu og ég hef verið, er mér samt stórkostlega létt. Ég hef það svo miklu betra, ég anda léttar. Bara við að koma hingað, varð allt mitt sálfarlíf fislétt.

Nú sit ég úti mínum stóru svölu hér suður-Ítalíu með útsýni yfir ólífudalinn. Ég hef fengið mér vindil yfir dagbókarskrifum. Ég sé að vísu ekkert því það er aldimmt, bara stjörnurnar á himninum yfir mér eru sýnilegar en ólífítrén eru drukknuð í myrkri. Kíki á þau í sólinni á morgun.

Við fórum upp í þorp í kvöld. Fengum okkur cokteil hjá Pino á barnum. Hann er stoltur drinks-maður hann Pino og vill endilega fá að velja cokteila fyrir mann þegar maður kemur. Hann lærði hanastélsgerð í New York fyrir nokkrum árum og lifir enn á þeirri veru. Pino og bróðir hans eru aðalmennirnir hérna í þorpinu. Þeir eru eins og bræðurnir í Ferrante bókunum. Vinna á bar, sem er líka bakarí og líka kaffihús, og allt líf bæjarins snýst um þennan hjartapunkt Vico og þeir eru geðveikt kúl, bræðurnir.

Í kvöld valdi Pino cokteil með gini, reyktu tequila og bergamente (sem er eins konar grapeávöxtur). Topp góður cokteill. Og svo vorum við leyst út með ólífuolíu fjölskyldunnar (okkar olía er búin) og marmeldaði sem fjölskyldan á barnum gerir úr eigin appelsínum og notar í coissantið í bakarínu. Þettar er snilldar marmelaði. Eins og allt sem þessi bar-fjölskylda gerir.

Í angist minni síðustu daga hef ég slökkt á internettengingunni á iPadinum mínum á kvöldin svo ég fengi að vera óáreittur. Engin mail eða SMS sem setja hugann á fleygiferð rétt fyrir svefninn. Ég hef því getað verið í friði frá klukkan tíu á kvöldin og fram á morgun. Ég vil ekki nein sterk áreiti og því les ég aftur bók Kazuo Ishiguro, The Gentle Giant. Mér líður vel í þeirri bók og það er kjörið lesefni til að kveðja daginn og leggjast til svefns.

Ég er glaður að ég á möguleika á að vera á Ítalíu í sumarfríi. Ég gæti ekki hugsað mér að vera í norður-Evrópu núna. Og enn síður í austur-Evrópu. Ég held að ég myndi deyja ef ég væri staddur í Kiev eða Helsinki í dag. Ég væri óhuggandi án þess að vita almennilega hvað Helsinki gengur út á (ég hef bara verið tvo daga í höfuðborg Finnlands) þá hef ég bara á tilfinningunni að ég mundi ekki lifa einn dag af í þeirri hálfrússnesku borg. Ég þrái hita og kæruleysislegt andrúmsloft suður Evrópu.

IMG_9940

ps. Sá að fjórar sítrónur á sítrónutrénu okkar voru nokkurn veginn þroskaðar svo ég tíndi þær í dag. Sítrónur eru bara fallegur ávöxtur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.