La Chiusa, Ítalía. Á tali við lögfræðing

Ég hef aldrei verið áhugamaður um lögfræðinga og ég hef átt öll mín viðskipti án þess að blanda lögfræðingum í málið. Flest hefur endað farsællega. Þegar ég seldi Pétri Má Bjart man ég að ég hringdi í hann frá sumarhúsi á Fjóni.

Skyndilega, kvöldið áður, hafði ég fengið mig fullsaddan á íslenskum bókamarkaði og ákvað að selja forlagið. Ég hafði setið með handrit ágætis rithöfundar og lesið látlaust í tvo eða þrjá daga. Svo kom að því að ég kláraði lesturinn. Það var komið danskt kvöld. Ég man ekki betur en ég hafi litið út í kvöldkyrrðina í gegnum stóra glugga bústaðarins áður en ég reis upp úr lesstólnum. Ég man að ég lagði útprentað handritið á borð við hliðina á stólnum. Það var orðið snáð eftir ferðalög frá Íslandi til Sjálands og þaðan til sumarhúss á Fjóni. Ég leit af handritinu upp til Sus sem sat andstpænis mér og las glanstímarit. Hún sá strax á svipnum á mér að eitthvað var í uppsiglingu.

„Hvað?“ sagði hún
„Nú veit ég að ég á að selja forlagið.“

Næsta morgun, þegar klukkan var orðin ellefu (níu á íslenskum tíma) hringdi ég í Pétur Má. Ég vissi að hann var áhugasamur. Ég tilkynnti verðið. Ég man ekki betur en hann segði bara já, má ég borga á næsta ári? Ég sagði, já, auðvitað.

Daginn eftir var forlagið sem sagt horfið úr mínum höndum í faðm Péturs Más. Enginn lögfræðingur flækti málin.

Í hádeginu í  dag átti ég sem sagt langan símafund með lögfræðingi. Ég sat úti í bíl á bílastæði niður við strönd. Ég neyddist til að láta bílinn vera í gangi, annars hefði verið óbærilega heitt inni í bílnum undir brennandi suður-ítalskri hádegissól.  Ég vissi að á þessu bílastæði væri símasamband nokkuð gott. Inni í bílnum sat ég í að minnsta kosti klukkutíma. Bílastæðavörur með skítuga derhúfu bankaði tvisar á rúðuna til að reyna að bægja mér í burtu en ég sagðist verða að tala í símann og ekki gæti ég gert það á vegum úti. Hann gaf sig en kom svo aftur tíu mínutum seinna með sama ólundarsvip, sömu derhúfu, og vildi enn bægja mér burtu. Þetta endurtók hann fjórum sinnum og ég endurtók sömu rulluna fjórum sinnum. Ég veit ekki hvort hann skyldi mig ekki, en mér fannst sem sagt óeðlilegt að hann kæmi aftur og aftur.

Undir samtalinu með lögfræðingnum hristi ég höfuðið margsinnis að lögtali og fannst vangaveltur og hin tortryggilega afstaða óskilnanleg. En nú er þessi ágæta lögfæðingskona komin inn í mín mál og vill ólm koma með greinargerð á morgun. Brátt er þessu bralli mínu lokið og ég get einbeitt mér að sumarfrí. Kannski á föstudaginn.

Ítalski rithöfundurinn, Gianrico Carofiglio, (við gefum hann út) hafði samband í dag og bauð okkur til sín í heimsókn til Bari á laugardaginn. Hann er geðslegur maður, Carofiglio. Talar fallega við og um fólk. Ökuferðin til Bari frá húsinu okkar tekur bara tvo klukkutíma og í Bari er IKEA. Finnst ekki öllum svo gaman í IKEA? Ha?

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.