La Chiusa, Ítalía. Að ganga á lyktina

Hó! Meira hvað líf mitt er í miklu uppnámi en jafnframt í algerri stöðnun. Ég sit kyrr nánast allan daginn yfir tölvuskjá, (ég sem er í fríi), og kvelst yfir þeim vandamálum sem ég þarf að leysa! Allt stefnir í að ég verði frjáls maður á föstudaginn og geti hafið mitt langþráða frí. Ítalía er frábær. Suður Ítalía er miklu betri en norður Ítalía.

Í morgun vöknuðum við Númi snemma (klukkan sjö) til að spila tennisleik á nýja tennisvellinum hérna rétt við ströndina. Bara 3 mínútna keyrsla. Þeir voru stoltir nýju eigendur tennisvallarins. Pino bareigandi hafði sagt mér frá þessum velli, og hann var líka stoltur. Pino lærði ensku á kokteilnámskeiði í New York fyrir mörgum árum. Það væru nokkrar ýkjur að segja að hann talaði góða ensku. En við eigum okkar góðu samtöl á þessu alþjóðlega tungumáli.

„Noh, nýr tennisvöllur,“ sagði ég við Pino. Á minni ensku
„Já, geðveikt nýr. Mega nýr! Niður við Calanella ströndina. Við skulum spila saman! Á föstudaginn? Ég er unglingameistari.“ Segir Pino á sinni ensku.
„Hvaða undirlag er á vellinum?“ spurði ég.
„Jurtir.“
„Jurtavöllur?…  Hvað áttu með jurtir?“
„Eins og í Wimbledon,“ sagði Pino.
„Meinarðu gras?“
„Já, gras.“

Þegar við komum að vellinum í morgun – klukkan var ekki orðin átta – tók á móti okkur maður með afar sterkt aftershave og hnausþykk gleraugu. Hann vinkaði okkur að koma inn á litla, gamaldags skrifstofu með eldgömlu faxtæki í miðpunkti. Ég fékk tárin í augun svo sterk var lyktin þegar ég gekk inn á skrifstofu hans. Númi flúði strax út af skrifstofu tenniseigandans og beið fyrir utan og hélt fyrir nefið. Ég lét mig hafa lyktina enda var maðurinn ekkert nema hjálpsemin. Hann vildi allt fyrir okkur gera til að tennisleikurinn mundi heppnast vel. Hann hljóp á undan okkur út af skrifstofunni og í átt að tennisvellinum til að vísa veginn  (það var þykkt lyktarský í kringum hann og við gátum án vandræða gengið með lokuð augu og opið nef og fylgt honum eftir). Hann opnaði hliðið, spurði hvort okkur vantaði bolta,  spaða eða aðra aðstoð.
„Nei, takk við höfum allt. Á ég ekki að borga þér?“
„Nei, nei, nei. Bara þegar þú ert búinn að spila. Eða þið…“
Jurtavöllurinn reyndist gervigrasvöllur. Og plastgrasið sem tennisleikurinn fór fram á var ansi hátt, alveg upp í ökla og það er ansi krefjandi tennis að spila á svo síðhærðum tennisvelli. En fallegur er hann. Eins grænn og grænt getur orðið. Ég tek mynd á morgun, því við spilum aftur á morgun!

Og svo spiluðum við Númi undir brennandi sól. Við höfðum áveðið að spila báðir eins agressivt og við gætum til að æfa þá tækni. Og boltinn gekk hratt yfir netið, yo!

ps. Carofiglio, rithöfundurinn,  sendi boð til okkar í dag. „Eigum við ekki að hittast á sunnudaginn í Bari? Þá er ég frjáls eins og fuglinn. Búinn að skrifa bókina mína!“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.