La Chiusa. Ítalía. Tækni við að ýta á eftir svari við tölvupósti.

Í gær fór ég þess á leit við lesendur kaktusins að þeir hjálpuðu mér við að leysa dulkóðuð skilaboð frá bareigandanum Pino. Það voru undarlega margir sem lögðu á sig mikil heilabrot til að leysa gátuna. Ég fékk meira að segja boð frá ítalskri stúlku, sem stödd er í Reykjavík um þessar mundir. Hún bað mig um hljóðupptöku af samtölum okkar Pino á ítölsku, þannig gæti hún greint dulkóðan betur. Ég gat því miður ekki orðið við þeirri beiðni. Sumri notuðu google translate til að leysa gátuna, og aðrir eigið hyggjuvit. En enginn kom með sérstaklega sannfærandi niðurstöðu.

Pino kemur hingað til mín í fyrramálið klukka 10:00. Ég spurði hann hvort hann gæti ekki komið klukkan 09:00. Svarið var stutt og ekki til að misskilja. „It is too early for me.“ En Pino kemur hingað á vespunni sinni og hann ætlar að reiða mig niður á tennisvöll, þar sem við hefjum tenniseinvígi. Unglingameistari Vico á móti áhugmanni frá Íslandi. Ég veit ekki hvað ég á að gera við mínar löngu lappir þegar við þeysum niður að strönd á vespunni, en það verður bara að koma í ljós.

Ég er allur léttari í dag. Um sex leytið fékk ég bréf frá Bandaríkjunum, New York, sem létti gersamlega á öllu mínu stressi og gaf basli síðstu daga hina endanlegu merkingu. Ég hef beðið eftir þessu skeyti. Allan daginn hafði ég annað augað á tölvupósti mínum. Hitt augað hafði ég á klukkunni í New York. Þótt klukkan væri orðin hádegi í New York kom ekki bréf að vestan. Ég ákvað því að beita ódýrasta bragðinu í samskiptareglum tölvupóstsvina: „Ég er staddur í hinu djúpa suðri Ítalíu. Ég sendi tvö mail í gær til þín með mikilvægu erindi. Nú veit ég að internetið í þessum hluta heimsins (Suður-Ítalía) er ekki sérlega traustvekjandi; hvorki er það hratt né stöðugt. Því spyr ég þig – og er þó engan veginn að ýta á eftir svari við spurningum mínum – hvort þú hafir móttekið tvær sendingar frá mér í gær?“

Eftir að ég sendi þetta skeyti af stað ákváðum við, tutta la famiglia, að fara niður á strönd, synda í klukkutíma og koma svo aftur og kíkja á póstinn. Þetta gerðum við. Ströndin hérna er sú besta í heimi. Það er að segja sú langbesta. Á ströndinni eru ekki margir baðgestir (og engir útlendingar). Sjórinn er hæfilega kaldur. Sjórinn er tær eins og englapiss. Og öldurnar nægilega æstar til að skemmtilegt sé að kasta sér í þær.

Og svo keyrðum við heim á ný. Öll nýböðuð og fersk. Allt gekk samkvæmt áætlun: svarið var komið, síminn minn titraði af eftirvæntingu, og í símanum lá akkúrat það svar sem ég hafði vonast eftir. Yoho! Það má segja að ég sé kominn í sumarfrí. Langt sumarfrí.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.