La Chiusa. Í tilefni dagsins

Fyrsti dagur í sumarfríi. Ég lá úti í sólinni og las þýðingu Jóns Halls á Spámönnunum. Ég les þá bók bara í bitum. Legg bókina frá mér vikum saman og byrja svo upp á nýtt. Hægt og rólega les ég bókina, spekúlera í setningum þýðandans og tek lífinu bara með hægð. Flott þýðing segi ég enn og aftur.

Ekkert varð úr tennisleiknum við Pino í morgun. Hann sendi sms í nótt klukkan hálf sex og sagðist vera að klára barvaktina og hann næði ekki að vakna til að spila tennis klukkan niu. Í stað þess spiluðum við Númi. Æsispennandi leikur sem endaði með sigri Núma 7-6 eftir tie-break 9-7. Gaman.

Í kvöld borðuðum við á LaChiusa della more sem er frábær veitingastaður hér í næsta dal, mitt inni í ólífulundi. Veitingastaðurinn er vel falinn og bara þeir sem hafa mikið fyrir hlutunum geta fundið þessa perlu á Gargano skaganum. Maturinn er í hæsta klassa, stemmningin er lágstemmd, glaðleg og kurteisleg. Allt er fallegt. Allt er gert til að veröldin sé falleg í augum gesta. Staðinn reka tveir karlar. Annar sköllóttur og er gífurlega smámæltur en framúrskarandi vingjarnlegur og fínn maður. Alltaf skal hann gefa okkur afslátt af matnum sem samt er hlægilega ódýr. Hinn er lítill naggur og óskaplega kurteis. Hann gengur um með hvíta hanska og bakkar alltaf frá borðinu eftir að hann hefur lagt mat eða drykki á borð. Enginn matseðill. Allir gestir fá það sama að borða. Antipasti. (þrír réttir) Pastaréttur. Kjöt. Desert (tveir desertréttir) og eftir matinn er alltaf kaffi og grappa/limoncello. Annan hvern dag eru kjötréttir á boðstólum og hinn daginn er allt gott frá hafinu. Í kvöld var kjöt svo á morgun er sjávarréttamatseðillinn.

Ég man ekki betur að við höfum boðið Palla og Nönnu að borða þarna með okkur í fyrra þegar þau komum hingað í heimsókn.

En nú er máltíð lokið og ég er sestur út á svalir og horfi út í myrkrið. Ég veit að ólífutrén eru hér allt í kringum mig þótt ég sjá bara kolsvartan vegg. Ég saddur, glaður og ánægður með að hafa setið hjá þessum tveimur veitingamönnum í mat.

Á morgun, strax eftir morgunmat, leggjum við af stað til Bari. Það er tveggja tíma keyrsla til Bari héðan frá LaChiusa. Carofiglio, rithöfundurinn, hefur boðið okkur í heimsókn til heimabæjar síns. Við getum ekki annað en þegið það velviljaða boð. Gistum eina nótt í Bari og svo aftur heim í ólífudalinn.

Í tilefni dagsins birti ég myndir héðan.

IMG_9954
Tröppurnar hér í LaChiusa.
IMG_9969
Efsti hluti LaChiusa
IMG_9987
Ströndin okkar
IMG_9999
Veitingastaðurinn LaChiusa della more

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.