La Chiusa, Ítalía. Aftur í ólífulundinn

Það er kvöld. Klukkan að verða ellefu og máninn rétt kíkir yfir fjallhrygginn hérna hinum meginn í hlíðinni, nógu hátt á lofti til að varpa gulri birtu yfir okkur í dalnum Við erum ein með ólífutrjánum okkar. Ekki lifandi sála í þriggja kílómetra hring umhverfis okkur. Rétt í þessu keyrði bíll niðri á veginum sem liggur 200 metrum fyrir neðan húsið. Það eru tíðindi þegar einhver á leið hér um að kvöldi. Ég sit úti á svölum. Sus liggur uppi í rúmi og les. Númi, sem fékk nýjan iPhone í dag, lagfærir innstillingar.  (Gamli iPhoninn hans bráðnaði í sólinni í síðustu viku þegar hann gleymdi honum í hálftíma á bekk hér fyrir framan húsið. Hitinn varð svo mikill að ekki hefur tekist að kveikja aftur á símanum. Það er ótrúlegt en satt að tryggingarnar borga símann í topp!). Davíð sefur.

Þótt ég sé ekki bókaútgefandi í þessar sex vikur sem ég sinni ólífuræktuninni, sækja enn að mér hugsanir sem ég gæti merkt bókaútgefandanum í mér. Þegar ég les New York Times eða önnur dagblöð les ég nær eingöngu menningarfréttir, fyrst og femst um bækur. Ég er brennimerkur.

Þegar ég geng um bæ eins og Bari, þar sem ég var í gær og í morgun,  sogast ég að bókabúðum. Ég geng inn og skoða hvað efst er á baugi, hvaða bækur ítalirnir eru að þýða og lesa. Hvaða bækur seljast, hvaða þýddu bækur eru að koma út og hvaða frumsamdar bækur eru að koma út. Svo vafra ég um búðirnar og athuga hvort ég finni eitthvað athyglisvert.

Á morgun ætla ég mér að mála húsið hérna og pizzaofninn, Goudy-ofninn. Það tekur nokkra daga að mála húsið. Það er gífulega heitt hér í LaChiusa; 38 stiga hiti í dag og núna þegar klukkan er meira en ellefu er 31 stiga hiti. Sólin er löngu sest og vindurinn sem kemur úr suðri er heitur. Við keyrðum framhjá ljótu borginni Foggia í dag á leið heim frá Bari og þar var hitinn 42,5 gráður. Vítiseldar sleikja iljar borgara Gómorru. Ég tók mynd af hitamælinum í bílnum mínum sem sýnir að hitann á því augnabliki þegar ég keyrði framhjá borginni.

IMG_0028

Mér varð hugsað til Frú Bovary í dag. Ekki veit ég afhverju. Hún var skandaltýpa, frú Bovary. Gaman að hafa gefið út Frú Bovary í íslenskri þýðingu Péturs Gunnarssonar. Hvað ætli Pétur Gunnarsson sé að skrifa núna? Kemur ný bók eftir Pétur í haust? Ég held að Sigurður A. hafi sagt mér söguna af Flaubert. Ég held meira að segja að hann hafi sagt mér þessa sögu oft.

Maður kemur að máli við Gustav Flaubert rétt eftir að bók hans Frú Bovary kom út í Frakklandi og fyrstu eintök bókarinnar höfðu ratað á heimili hinna lesandi Frakka. Bókin var hneyksli og aðalpersónan Bovary er svakaleg kvenpersóna. Hinir lesandi Frakkar vissu ekki hvað þeir skyldu halda.
„Herra Flaubert, segið mér, hver er frú Bovary?“ spyr maðurinn.
„Madam Bovary, c’est moi. Frú Bovary, það er ég.“
Þetta fannst Sigurði A. flott. Þetta fannst mér líka flott.
Þetta var bókmenntamoli dagins.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.