La Chiusa, Ítalía. Bókmenntamolar

Ég hafði hugsað mér að birta annan bókmenntamola í dag, sá fyrsti birtist í gær. En gleymdi alveg að hugsa um hvað það ætti að vera sem ég vildi skrifa um. Ég var upptekinn í dag. Þótt verkefni mínu, sem ég hef unnið að síðustu mánuði sé nær lokið,  þarf ég að hnýta síðustu slaufuna og það tekur víst nokkra daga. Vonandi  verð ég búinn að binda hina fínustu slaufu seinnipartinn á morgun.

En ég ætlaði að skrifa bókmenntamola og án þess að ég hafi hugsað neitt sérstakt kom mynd af Paul Auster upp í hugann. Ég hef oft hitt Paul Auster, bæði í Danmörku og á Íslandi. Fyrsti fundur okkar var ekki sérlega vel heppnaður. Það var við móttöku á bókmenntahátíð í Reykjavík, sennileg árið 2002. Ég held að móttakan hafi verið þar sem nú er Hard Rock cafe. Auster var þar einn helsti gestur bókmenntahátíðarinnar það árið.

Ég kom of seint til móttökunnar. Ég hef tilhneigingu til að koma of seint á slíkar athafnir. Ég gekk inn í þéttskipaðan salinn. Í loftinu var sæt lykt af ódýru rauðvíni og ilmur af spariklæddum konum. Ég svipaðist um í salnum og þekkti held ég öll andlitin sem þarna höfðu safnast saman til að fagna opnun bókmenntahátíðarinnar í Reykjavík.  Ég sá Auster útundan mér á tali við Örnólf Thorsson. Ég ákvað að hengja jakkann minn upp í fatahenginu og fá mér rauðvínsglas í aðra höndina og rækjusnittu í hina. Síðan vatt ég mér að hinum fræga höfundi og kynnti mig sem íslenskan útgefanda hans. Hann virti mig fyrir sér í dágóða stund með sínum útstæðu augum sem mér er skilst að virki dáleiðandi á margar konur. Honum tókst ekki að dáleiða mig með þessum augum, ég velti bara fyrir mér hvort þetta væri afleiðing sjúkdóms þessi útstæðu augu. Hann hefur örugglega ekki heldur verið sérlega imponeraður yfir því sem hann sá því hann byrjaði strax að bögga mig.
„Ég veit vel að þú hefur gefið út nokkrar af bókum mínum, sem er nú fínt, en afhverju hefurðu ekki gefið út þær allar. Ég hef skrifað miklu fleiri bækur en þú hefur gefið út. Það vantar að minnsta kosti þrjár eða fjórar af bókunum mínum í íslenskri þýðingu.“
Það kom fát á mig. Hvers konar eiginlega? hugsað ég en læt ekki slá mig út af laginu. „Já, Paul Auster, þótt þú sért frægur höfundur og getir örugglega selt allar þínar bækur í flestum löndum heims í þúsunda tali verður þú að gera þér grein fyrir að við erum að gefa út fyrir málsvæði sem hýsir 300.000 manneskjur. Og þar af eru bara um það bil 2000 af þeim sem hafa einhvern áhuga á bókunum þínum.“
„Já, ég veit vel að íslenskt samfélag er ekki stórt… En það skýrir ekki afhverju til dæmis Mr. Vertigo er ekki komin út hjá þér… Ekkert er eðlilegra en að útgefandi….“
Ég horfði undrandi á þennan ófyrirleitna höfund og velti fyrir mér hvort hann væri að grínast. Nei, ekki örlaði gleði eða spaugi í andliti þessa fræga höfundar. Mér tókst bara að lesa skelfilega reiði og óhaminn pirring úr svipi rithöfundarins. Ég ákvað þá að taka nýjan vínkil á málið.
„Veistu hvað, Auster,“ sagði ég á sannfærandi hátt. „Nú skaltu hlusta. Þegar við gáfum út bók þína Music of Chance (innskot: bókin fékk titilinn Hending á íslensku) gerðum við svolítið sem enginn útgefandi hefu leikið eftir. Bókin var sú fyrsta í flokki sem við köllum neon og er flokkurinn helgaður því nýjasta og því athyglisverðasta í bókaútgáfu heimsins. Þú getur verið óhemju stoltur að hafa verið valinn til að koma út í neon. Yo.“ Paul reyndi að grípa frammí fyrir mér. En ég læt dæluna ganga, sló öll vopn úr höndum höfundarins.  „Til að gleðja væntanlega lesendur neon bókanna, og þar með lesendur bókarinnar þinnar Hending, settum við sérstakar ljósagnir í kápuna þannig að bókin lýsti í myrkri. Menn þurftu ekki að kveikja ljós þegar þeir lögðust með Hendingu í myrku herbergi. Gjörvallt herbergið lýstist upp þegar  bókin þín var tekin fram. ‘Neon: bækur sem lýsa í myrkri.’ er slagorð okkar.“ Ég veifaði ímynduðum áheyrendum.
Paul horfði forviða á mig. Hann skyldi augljóslega ekki neitt í því sem ég sagði.
„Og?“ sagði hann svo eftir langa mæðu.
„Og!!!“ Hvað meinarðu OG! Sérðu ekki snilldina, maður?“ hrópaði ég. „Þetta hefur enginn útgefandi leikið eftir. Hvorki í þínu eigin heimalandi né á mörkuðum sem eru margfalt stærri en hinn íslenski… Og? … ertu alveg galinn?“

Ekki ætla ég að útlista hvernig þetta samtal endaði en ég get upplýst að þremur dögum síðar áttum við sáttafund á Hótel Holti, klukkan níu að morgni. Sá fundur fór ágætlega.

Í dag varði ég drjúgum tíma í að hlúa að appelsínutrjánum hér á landareigninni. Það er svo hvínandi heitt og ekki hefur komið dropi úr lofti síðan í maí.  Nauðsynlegt er því að takmarka uppgufun frá appelsínutrjánum og viðhalda raka í moldinni í kringum trén.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.