Vorum að koma heim eftir kvöldferð upp i þorp, Vico del Gargano. Hittum þar Sanne og fjölskyldu og Carsten og Sus sem voru að koma úr flugi frá Danmörku. Gaman að fá þau öll hingað. Borðuðum með þeim kvöldmat og drukkum bjór og vín. Þau voru þreytt eftir ferðina svo við fórum senemma heim. En heimkoman í húsið okkar í skóginum var kannski ekki eins og við höfðum vonað. Inni í stofunni flaug leðurblaka í látlausa hringi. Sus og Daf hlupu öskrandi út en við Núm vorum sendir inn til að fá dýrið út. Þetta var löng barátta með pizzaspaða og gömlu priki. Leðurblakan flögraði upp við loftið sem er meira en 4 metrar á hæð og svo það var erfitt að fá dýrið niður og út í gegnum dyrnar. Á endanum slóg Númi hörku forhandarhögg beint framan á leðurblökuna sem hentist út í vegg. Það var ekki um annað að ræða en að aflífa dýrið og henda því út. Ekki gaman.
Það hafa verið mikil viðbrögð við liðnum bókmenntamolar og hafa menn ýmsu við frásagnir mínar að bæta. Aðrir draga eitt og annað í efa. Bókmenntamolar eru á mína ábyrgð, þetta eru molar byggðir á ábyggilegum heimildum. Molarnir eru gersamlega óundirbúnir, engin rannsóknarvinna fer fram. Ég skrifa það sem kemur upp í huga mér þegar ég hef skrifað niður orðið bókmenntamoli hér í dagbókina og í dag kemur skáldið Bergsveinn Birgisson ljóslifandi upp í kollinn á mér. Bergsveinn er einn af þeim mönnum sem er það sem hann gerir, hann er ekki það sem hann segist gera, eins og einhver lýsti Bergsveini í mín eyru..
Það var Jón Karl Helgason sem uppgötvaði skáldið Bergsvein fyrir bókaforlagið Bjart á sínum tíma. Það höfðu gengið nokkrar sögur um efnilegan pilt í útjaðri bókmenntasenunnar í Reykjavík sem væri einskonar blanda af pönkara og gömlum rímnamanni. Þetta þótti okkur Bjartsmönnum forvitnileg samsetning og þegar okkur áskotnaðist handrit frá efnispiltinum var Jón Karl fljótur að veiða það upp úr handritabunkanum sem lá á forlaginu. Það leið ekki nema hálfur dagur þar til Jón Karl kom til mín og sagði. Þetta skaltu lesa. Hér er eitthvað bitastætt. (Mér er oft hugsað til handritabunkans sem lá oft óhreyfður á Bræðraborgarstígnum í of langan tíma. Aumingja skáldin sem þurftu stundum að bíða vikum saman eftir svari frá okkur. Ef ég væri íslenskur útgefandi mundi ég leggja meiri áherslu á að afgreiða öll handrit með hraði, og sanngirni).
Ég hef eftir áreiðanlegum heimildum að Bergsveinn sé búinn að skrifa handrit að nýrri bók. Nú geta áhugamenn um magnaðar bókmenntir haldið niður í sér andanum í spenningi því óvíst er hvort bókin nái að koma út í haust. Um að ræða skáldsögu skrifuð í stíl Karl Ove Knausgard; einskonar minningabók eða skáldminningarbók. Um efni bókarinnar verður ekki upplýst hér. En bókin er að sögn rafmögnuð.