La Chiusa, Ítalía. Betlarinn og umboðsmaðurinn.

Það gerast ótrúlegustu hlutir í litla ólífudalnum okkar. Upp úr klukkan sex í morgun heyrði ég að bílar renndu í hlað. Hér er aldrei neinn á ferð svo maður vaknar þegar bíll keyrir upp að húsinu. Ég hélt að þetta væri vatnsmaðurinn á ferð, hann á það til að koma á tankbílnum sínum bara til að horfa ofan í vatnsbrunninn okkar. Hann er áhugamaður um yfirborðsstöðu vatns. Ég skil ekki orð af því sem hann segir – nema aqua. Annars talar hann einhverja díalekt sem ég get með engum móti skilið.

En það var ekki hann sem renndi í hlað í morgun heldur voru það tveir fólksbílar og það var asi á þeim. Fyrst kom rauður Alfa Romeo og á eftir honum kom einhver útgáfa af Fiat. En það var enginn venulegur FIAT því þetta var FIAT bíll merktur lögregluliði Ítalíu CARABINERI. Og það blikkuðu blá ljós upp á þaki FIATbílsins.

Ég flýtti mér út á stétt til að taka á móti þessari sérstöku bílalest. Ofan af efstu tröppu sá ég að það stóð annar CARABINERI bíll við enda innkeyrslunnar, Land Rover CARABINERI. Ég var hálfsjokkeraður yfir þessari heimsókn svona snemma morguns. Allir í fjölskyldunni sváfu svo ég hafði gengið hljóðlega út til að taka á móti hersingunni.

Út úr FIAT bílunum stigu tveir einkennisklæddir lögreglumenn og mér til undrunar voru þeir báðir vopnaðir hríðskotabyssu eða vélbyssum, sem héngu yfir öxlinni á þeim. Hvað er núna í gangi? hugsaði ég. Út úr Alfa Romeo bílnum stigu sömuleiðis tveir lögreglumenn og úr baksæti bílsins drógu þeir út ungan, sköllóttan mann með derhúfu. Hann var með hendurnar í handjárnum.

Þarna stóð ég klukkan rúmlega sex að morgni og horfði á þennan flokk manna sem tilheyrðu algerlega annarri veröld en minni. Einn lögreglumannanna gaf mér merki um að ég ætti að koma til þeirra. Ég hljóp niður tröppurnar og flýtti mér til móts við þennan alvarlega hóp.

„Kannist þér við þennan mann?“ spurði lögreglumaðurinn sem hafði bent mér að koma niður og beindi nú vélbyssunni að manninum í handjárnunum.
Ég virti manninn fyrir mér. Mér fannst ég kannast við hann. Hvað átti ég að segja við lögregluna? Lögreglumennirnir þrír stóðu allir í viðbragðsstöðu og biðu þess að ég segði það sem ég vissi.

Ég var handviss um að ég hafði séð manninn áður. Hann var niðurlútur, dökkur á hörund og með gula, þunna, derhúfu á höfði. Einn lögreglumannanna tók derhúfuna af höfðinu, óþarflega harkalega. Nú mundi ég hvar ég hafði séð manninn. Hann hafði staðið fyrir utan barinn í gær og betlað.  Og einmitt notað derhúfuna til að ota að fólki. Hann var hortugur betlari. Hann skammaði þá sem ekki vildu sjá af aur til hans. Enginn gaf honum pening en hann stóð og réðst á fólk með framrétta derhúfu og eiginlega krafðist peninga.

„Kannist þér við þenna mann?“ endurtók lögreglumaðurinn.
„Nei,“ sagði ég. Ég nennti ekki að blandast inn í mál betlarans.
„Þú hikar… kannist þér við manninn?“ endurtók lögreglumaðurinn og horði stíft á mig. Um leið gaf hann merki til hinna lögreglumannanna sem þustu nú upp tröppurnar og inn í húsið hjá mér þar sem allir lágu sofandi.
„Heyriði, þið getið ekki bara ætt inn…“ ég snerist á hæli og hljóp á eftir lögreglumönnunum.  „Það eru sofandi börn þarna inni.“ En lögreglumennirnr þrír hlupu inn. Sekúndubroti síðar kom einn af lögreglumönnunum aftur út og hindraði að ég kæmist inn með því setja vélbyssuna þvert á gönguleið mína. Ég horfði undrandi á manninn og vélbyssuna. Hann glotti. Svo lyfti hann vísifingri hægri handar upp að auganu á sér. Hann var með stóra punga undir augum. Svo dró hann neðri hluta augnumgjarðarinnar niður (augnpungana) og sagði hálfhvíslandi. „Við erum að leita að þjófum.“

Þeir komu út 30 sekúndum síðar, lögreglumennirnir sem voru inni í húsinu, og hlupu niður tröppurnar. Einn talaði í talstöð. Og svo þeir stukku inn í bíla sína. Betlaranum var stungið inn í aftursætið og nú var aftur brunað af stað. Enginn kvaddi.

Ég stóð enn í dyragættinni og fylgdist með bílalestinni keyra fremur glannalega niður götuna. Allir í húsinu sváfu vært.

Um tveimur klukkustundum síðar vöknuðu Sus og Daf. Og Númi ekki löngu síðar. Ég byrjaði að útskýra hvað hafði gerst fyrr um morguninn en enginn trúði mér. Það var hrikalega fyndið. Þótt ég segði söguna sjö sinnum á eins sannfærandi hátt og ég gat,  fann ég enn fyrir efasemdum annarra í fjölskyldunni. Ég gat ekki alemnnilega sannfært mitt fólk um að ég hafi tekið á móti fjórum lögreglumönnum og betlara.

Svona var það nú.

Bókmennatamoli. Frétti tvennt í dag frá hinni íslensku bókmenntaveröld.
1) Storytell, sænska streamingþjónustan, undirbýr komu sína til Íslands. Margir telja að það geti orðið banabiti íslenskrar bókaútgáfu sem hefur átt allt sitt undir sölu bóka fyrir jólin, á bókaverði sem getur haldi uppi starfsemi bókaforlaga í 12 mánuði. Storytell borgar um það bil 10% af verði bókar til forlags þegar áskrifandi les eða hlustar á bók í gegnum streaming. Til lengri tíma grefur þetta undan útgáfunni en spurningin er hvort hægt sé að komast hjá innrás Storytell.
2) Frést hefur að íslenskur höfundur sé farinn að nýta sér þjónustu erlendra umboðsmanna til að semja um kaup og kjör við íslenskar útgáfur. Enginn íslenskur höfundur hefur fyrr haft umboðsmann til að semja við forlög. Slíkt tíðkast í útlöndum. Um er að ræða óþekktan höfund að barnabók sem tvö íslensk forlög hafa sagst vilja gefa út. Þriðja forlagið er með handritið í skoðun og hefur gefið til kynna að það hafi áhuga á bókinni. Höfundurinn ungi er búsettur erlendis og mun hafa unnið fyrir erlend forlög og kynnst starfsemi umboðsmanna í gegnum þau. Umboðsmaðurinn –  það fer tvennum sögum af þjóðerni umboðsmannsins; enskur eða danskur – hefur sagt forlögunum tveimur að ekki verði  hafnar samningaviðræður fyrr en þriðja forlagið hafi gefið svar. Í boði er víst nokkuð rausnalega fyrirframgreiðslu fyrir bókarhandritið. Nýir tímar í útgáfunni á Íslandi.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.