Mér hefur enn ekki tekist að binda þessa fínu slaufu á mitt eilífðarverkefni. Ég er langt kominn og væntanlega búinn á mánudag.
Dagurinn í dag var helgaður mínu slítandi verkefni, símtöl, sms og e-mail allan daginn og ég er búinn að fá gersamlega nóg. Ég vil frið.
Í kvöld fórum við út að borða með Carsten auglýsingamanni, Søs og Rosu stelpunni þeirra. Carsten er skemmtilegur gaur en er gersamlega ofvirkur. Søs er frábær. Carsten getur ekki setið kyrr. Hann er eins og Border Collie hundur; hann þarf að hafa verkefni annars verður hann crazy. Það er til dæmis fínt fyrir hann ef hann hefur eitthvað til að strauja. Hann er trylltur í að strauja; skyrtur, buxur, náttföt og boli. Að strauja hjálpar honum í gegnum daginn án þess að verða tjúllaður Ef hann fer niður á stönd verður hann að byggja sandkastala eða vesenast eitthvð svo hann geti komist óbilaður í gegnum strandferðina.
Ég gleymdi að segja að ég spilaði tennis við Pino, bareigandann hér í bænum í hádeginu í dag. Þetta er mikilvægt. Það er auðvitað óðs manns æði að spila tennis undir berum himni í 32 stiga hita, og í hádeginu. En það gerðum við Pino. Sólin bakaði okkur gersamlega. Pino er fínn tennisspilari… en ég vann. Yo. Ég vann! Ég er verð alveg trylltur ef ég vinn. Ég get svifið heilan dag bara af hugsuninni að hafa unnið tennisleik við Pino. 7-5. Mikið var ég glaður. Og ég er enn alveg í skýjunum.
Já, bókmenntamoli dagsins fjallar um glæpasögur. Ég hafði aldrei heyrt um breska glæpasagnahöfundinn Quentin Bates sem skrifar glæpasögur þar sem Reykjavík er sögusvið, fyrr en ég rakst á grein um höfundinn í erlendu tímariti. Höfuðpersóna bóka Bates er Gunnhildur Gísladóttir lögreglukona í höfuðstaðnum. Quentin Bates hefur þegar skrifað 5 bækur í bókaflokknum um Gunnhildi og sú síðasta kom út árið 2016, Thin Ice. Yrsa Sigurðardóttir hefur ausið þennan höfund (sem stundaði nám í Háskóla Íslands á áttunda áratug síðusta aldar) lofi og segir að hann nái algerlega hinu reykvíska andrúmslofti. Á Amazon getur maður lesið að Quentin fær bara lof frá lesendum sínum.