La Chiusa, Ítalía. Geimfarinn sem vissi ekki hvar hann átti að lenda

Enn er ég sestur út á mínar stóru svalir í  sveitinni og yfir mér er kolsvartur himinn. Að vísu skína stjörnurnar, en mánann er hvergi að sjá. Þegar ég horfi upp í himinhvolfið verður mér hugsað til geimfarans Sergei Krikalev sem varð nokkuð frægur, enda gerð kvikmynd byggð á ævintýrum hans. Hann var sendur upp í geiminn árið 1990 til að dvelja í hinni sovésku MIR geimstöð. Hann sveif um í þessu volduga geimskipi mánuðum saman og hans helsta gaman var að ná sambandi við jörðina í gegnum amatör fjarskiptastöð.  Það hafði enginn fyrr leikið eftir. Á spjalli sínu í gegnum talstöðina komst hann í samband við ítalska radíóamatörinn Margareti Iaquinto. Hún sat á jörðu niðri. Þau hófu eldheitt radíósamband. Þau ræddu saman dag hvern í gegnum talstöðvarnar bæði persónuleg og pólitísk efni.

En Krikalev er fyst og fremst frægur fyrir að hafa horft á heimaland sitt Sovétríkin liðast í sundur utan úr geimnum. Þann 26. desember árið 1991 brotnaði hið stóra sovéska heimveldi niður í frumeindir sínar. Kirkalev, sem var á heimleið til Sovétríkjanna, var skipað að halda áfram að svífa um geiminn því lendingarstaðurinn hét skyndilega ekki lengur Sovétríkin heldur Kazakstan og það nýja land vildi ekkert kannast við geimflaugar og geimflaugalendingarstaði. Enginn vildi því taka á móti hinum sovéska geimfara og Kirkelev sveif mánuðum saman um geiminn í MIR eldflaugastöðinni og beið eftir að einhver vildi leyfa honum að koma niður úr geimnum.

Þetta var sagan af Kikelev. En þá er komið að bókmenntamola dagsins. Og eins og áður kemur óundirbúið mynd af skáldi í hausinn á mér. Í þetta sinn er það Margaret Atwood; kannski út af radíóamatörnum Margareti Iaquinto. Kanadíska skáldkonan er skyndilega aftur kominn í sviðsljósið vegna nýju sjónvarpsseríunnar byggða á sögu hennar Saga þernunnar, sem kom út í íslenskri þýðingu Áslaugar Ragnars árið 1987 að mig minnir.

Ég hef hitt Margareti Atwood. Það var í Reykjavík árið 2005 og hún var stödd á bókmenntahátíð Reykjavíkur eins og mörg önnur góð skáld. Hún skynjaði sjálfa sig sem mjög fræga, man ég, og hafði sveipað um sig áru hinna ofurfrægu. Sýndi ákveðna fjarlægð í öllum samskiptum, eins og hún væri hrædd um að almúginn væri tilbúinn að gleypa í sig frægð hennar ef hún hleypti fólki of nærri sér. Ég fékk það hlutverk að keyra hana og mann hennar (sem kom með henni á bókmenntahátíð) heim á hótel í miðbæ Reykjavíkur eftir að hún hafði komið fram í Norræna húsinu.

Hún settist frammí hjá mér, og eiginmaðurinn, sem var einstaklega málglaður og hjartaprúður, settist aftur í. Ég átti á þessum tíma gamlan afturhjóladrifinn Mercedes Benz bíl. Þetta var stór bíll og nóg pláss fyrir alla ef einungis voru þrír í bílnum. Margaret sat í farþegasætinu fram í, mér við hlið, og það var eins og hún héldi að einhver ætti að sitja á milli okkar því hún sat algerlega límd út við dyrnar sín megin. Hún sagði ekki orð í þessari stuttu bílferð og leit aldrei í átt til bílstjórans. Maður hennar í aftursætinu lét hins vegar dæluna ganga og lýsti yfir hrifningu sinni á öllu sem fyrir augu bar.

Bíltúrinn milli Norræna hússins og hótel 101 í Reykjavík er mér minnisstæður fyrir þær sakir að þetta er í fyrsta og eina skipti sem ég hef keyrt bíl og algerlega verið í hlutverki bílstjórans, mannsins sem flytur fólk frá einum stað til annars, en hefur engin önnur tengsl við fólkið sem hann keyrir. Margaret borgaði ekki fyrir túrinn, enda var það ekki ætlunin, en hún virti bílstjórann aldrei viðlits og yfirgaf bílinn án þess að kveðja. Farþeginn í aftursætinu var hins vegar afar glaður með ferðina og hann tók kröftulega í höndina á mér til að þakka fyrir spjallið, og keyrsluna.

dagbók

Skildu eftir svar