La Chiusa, Ítalía. Gestalúðrasveit

Það er kirkjuhátíð hér í Vico del Gargano, þriggja daga hátíð sem bæjarbúar taka alvarlega og markar einn af hápunktum ársins. Hingað í bæinn er komin gestalúðrasveit sem gengur um götur og torg frá morgni til kvölds og spilar marsa og aðra góða lúðrasveitartónlist. Lúðraflokkurinn er einkennisklæddur og gengur í takt.

Þrjú næstu kvöld er lifandi tónlist á öllum þeim börum sem telja sig alvöru uppi í bænum. Íbúar Vico del Gargani eru flestir prúðbúnir allan daginn, karlarnir vatnsgreiddir og í gljábónuðum, svörtum lakkskóm, og þrjá daga í röð (um eftirmiðdaginn) er gengið í skrúðgöngu með heilög líkneski í fararbroddi.

Þótt tilgangur þessarar hátíðar sé trúarlegur eru göturnar nú fullar af 17. júní sölubásum með kínverskar eftirlíkingar af evrópskum og amerískum merkjavörum. Og auðvitað er ís á boðstólum í hverju götuhorni. Inni á kökusölunni hjá Pino á barnum er örtröð. Fólk stendur í löngum röðum til að kaupa fínu kökurnar í bakaríinu og koma svo þaðan út með rauða pappaöskju fulla af allskyns kökum og sætmeti.

Við gátum ekki alveg notið hátíðarinnar í kvöld því Sus var með herfilega magakveisu svo við flýttum okkur með hana heim svo hún gæti lagst fyrir.

Við höfum tekið að okkur hund. Hundurinn, sem nú hefur fengið nafnið Nero, birtist í pizzaveislunni í gærkvöldi og hefur ekki yfirgefið okkur síðan. Þetta er svartur hvolpur af gersamlega óþekktu kyni. En maður hefur ekki hjarta í sér til að reka hann í burt, þetta litla og káta grey. Nú fær hann að borða hér og vatna að drekka. Nero er glaður hundur.

Bókmenntamoli dagsins fjallar um Stieg Larsson. Allt í einu leitaði hugur minn til hins látna, sænska höfundar. Stieg lést af hjartaáfalli nýorðinn fimmtíu ára gamall árið 2004. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að hann hafi hnigið niður á tröppum forlagsins síns Norstedts í Stokkhólmi á leið í kaffi hjá forleggjaranum. Ári eftir að Stieg Larsson lést kom út fyrsta bókin í Millenium seríunni, Karlar sem hata konur. Og þar með hófst löng og mikil sigurganga norrænna glæpasagna í Evrópu og Bandaríkjunum sem er fyrst núna tíu árum seinna í rénun. Að vísu fékk þessi fyrsta bók Stieg Larssons í Millenium seríunni alveg herfilega dóma í New York Times útgáfuárið 2008. „Það er skelfilega ljót sýn á mannlega náttúru sem bókin Karlar sem hata konur býður upp á. Auk þess er sagan hundleiðinleg, langdregin og borin uppi af slöppum tölvupóstsamskiptum höfuðpersónanna.“

Ekki hefði ég keypt bók sem New York lýsir á svo svakalegan hátt. En þrátt fyrir þessa hraksmánarlegu dóma varð bókin mikil metsölubók í Bandaríkjunum og sat á metsölulista New York Times vikum og mánuðum saman.

Þegar Stieg Larsson dó hafði hann þegar afhent handrit að þremur bókum í Millanium seríunni til Norstedts forlagsins. Fjórða bókin var sennilega í smíðum og enn er deilt um hver eigi rétt á því handritsbroti, fyrrum sambýliskona Stiegs, Eva Gabrielsson eða faðir hans og bróðir (sem lögum samkvæmt eru erfingjar Stiegs). Ekki er vitað hvort handritið að fjórðu bókinni sé yfirleitt til. Sögusagnir herma að Eva Gabrielsson hafi handritið undir höndum og geymi það á góðum felustað, langt frá fingrum hinna lögmætu erfingja.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.