Í kvöld var hið árlega borðtennismót, La Chiusa Open haldið í fimmta sinn. Til leiks voru skráðir 12 þátttakendur sem mættu rétt upp úr klukkan fimm. Auglýsingamaðurinn Carsten, Søs og Rosa. Söngkonan Sanne, trommarinn Henrik, Jonathan, Villas og Hannah. Auk okkar hér íbúanna í LaChiusa. Það er ekki hægt að segja annað en að úrslitin hafi komið á óvart. Númi, La Chiusa meistari síðustu þriggja ára tapaði óvænt úrslitaleiknum á móti litla bróður sínum. Davíð varð sem sagt La Chiusa meistari 2017!
Það er mikil vinna við að undirbúa LaChiusa Open því hefðinni samkvæmt er alltaf borðað mikið magn af pizzu á eftir borðtennismótinu og því þurfti ég að hita upp pizzaofninn. Ég hef haldið ofninum heitum síðan klukkan hálf tvö.
Bókmenntamoli. Þegar Ísland varð aðallandið á Frankfurtarmessunni fyrir nokkrum árum voru vandfundnar íslenskar bækur sem ekki voru þýddar á þýsku það árið. Ég held að um það bil 150 bækur hafi verið þýddar á þýsku. (Afleiðingin af þessu offramboði af íslenskum bókmenntum í Þýskalandi var að varla hefur verið þýdd íslensk bók síðan Frankfutarárið mikla.) En ég man að á skrifstofu okkar á Bræðraborgastígnum kom í heimsókn undarlegur þýskur útgefandi. Þetta var árið fyrir hið fræga Frankfurt ár. Útgefandinn þýski kom æðandi inn á skrifstofuna, sveittur og undarlegur. Hann bar gífulega stór gullspangargleraugu með einhverri skyggingu og ég er ekki frá því að hann hafi haft gervihár á höfðinu. Í það minnsta var hárgreiðslan æði dularfull. Hann sagðist hafa komið hlaupandi frá höfninni og gaf eiginlega í skyn að hann hefði komið með skipi frá Þýskalandi fyrr um morguninn.
„Góðan daginn, Helmut heiti ég, kom siglandi frá Þýskalandi í dag. (ör andardráttur) Hafiði nokkra bók hér sem ekki er seld til Þýskalands. Ég hef mikinn áhuga á að gefa út íslenskar bækur á þýsku.“
Ég horfði undrandi á manninn. Hvers konar spurning var þetta?
„Já,“ sagði ég, kankvíslega. „þessi hér,“ og benti á bók Óskars Árna Óskarssonar, Vegurinn til Hólmavíkur.
„Já, frábært. Hvað heitir hún? Sagan?“
„The Road to Hólmavík-bay,“ svaraði ég á ensku.
„Hmmmm,“ sagði útgefandinn. „Áttu ekki einhverja aðra, aðeins meira spennandi?“
„The Road to Hólmavík-bay er æsispennandi.“
„Er eitthvað gott grín í bókinni, eða æsandi kynlíf?“ Hann dró upp vasaklút og þurrkaði svitann af enninu og fyrir neðan nefið.
Mér þótti þetta of undarlegt samtal til að nenna að eiga viðskipti við þennan mann svo ég ákvað að gefa útgefandanum í næstu dyrum, Jóhanni Páli, tækifæri á að selja bók til Þýskalands. Jóhann greip víst tækifærið. Sagan segir að hann hafi selt gleraugnamanninum heildarútgáfulista þriggja höfunda. Með loforði um að í bókunum væri bæði gott grín og æsandi kynlíf.