La Chiusa, Ítalía. Nikki er ekki gælunafn.

Það er merkilegt að ég get eiginlega ekki lesið neitt þessa dagana. Ég hef ekki frið í hausnum til að lesa. Það er enn of mikið um að vera í vinnunni minni, ég sit enn yfir tölvu daga langa, les samninga, tala í síma, svara tölvupóstum, sendi sms. Það er ekki fyrr en þessari törn er lokið að ég get byrjað að lesa aftur.

Bókmenntamoli: Ég las að vísu svolítið í The Guardian, það er að segja bókmenntahluta dagblaðsins. Þar las ég grein sem fjallaði um hve mikilvægt sé að byrja bækur vel og tóku þeir Guardian menn dæmi um vel heppnaðar bókabyrjanir. Best af þeim 10 sem dagblaðið valdi fannst mér byrjun Kazuo Ishiguro á bókinni A Pale View of Hills sem er fyrsta bók hins japansk/breska höfundar. Bókin hefur aldrei komið út í íslenskri þýðingu.

“Nikki, the name we finally gave my younger daughter, is not an abbreviation; it was a compromise I reached with her father. For paradoxically it was he who wanted to give her a Japanese name and I – perhaps out of some selfish desire not to be reminded of the past – insisted on an English one.”

Ég fylgist með nokkrum rithöfundum, skrifum þeirra, daglegu lífi, kynningarferðalögum, og les auðvitað margar af bókum þessara höfunda. En ég veit ekki hve oft ég hef furðað mig á hinum ótalmörgu tilgangslausu ferðalögum sem þessir höfundar eru á. Allt í nafni einhverrar bóka/höfunarkynningar. Stundum er hlægilegt að lesa eða heyra um þessar ferðir og manni fer stundum að gruna að þetta sé hin auðveldasta flóttaleið sem höfundum stendur til boða. Frá hverju? Ja, því velti ég fyrir mér. Kannski að skrifa eitthvað af viti? Ég veit það ekki. Ekki er ég rithöfundur. Kannski væri ég eins ef ég hefði það fyrir atvinnu að skrifa bækur. Það er þrældómur að skrifa eitthvað af viti. Auðvitað hafa sumar þessara ferða einhvern góðan tilgang, en oft hef ég samt furðað mig á löngum ferðalögum með lítinn eða óvissan tilgang.

Einu sinni gáfum við út þýskan glæpahöfund. Henni var boðið af lítilli kommúnu á Jótlandi í bókmenntahátíð sem kölluð var Trekantsområdets-bókmenntahátíð. Hún átti að lesa einu sinni upp á bókasafninu í Viborg. Við fréttum fyrst að höfundur okkar var væntanlegur til þessarar hátíðar rétt áður en hátíðin var sett. Forsvarsmenn hátíðarinnar hringdu til okkar og spurðu hvort við gætum sótt konuna á flugvöllinn. Auðvitað gerðum við það og sáum þar á eftir um konuna. Komum með henni til Viborgar, settum hana af á hótelinu, buðum henni út að borða, reyndum að finna blaðamenn sem gætu tekið viðtal við hana (án árngurs) og reyndum að vera skemmtileg. Við skyldum þó aldrei afhverju hún hafði þegið þetta boð. Hátíðin öll bar þess merki að hér voru algerir amatörar á ferð enda komu einungis 3 (með okkur Sus) til að hlusta á lestur skáldsins.  Þar með var hennar hlutverki á hátíðinni lokið. Allt var svo skelfilega tilgangslaust.

Í gær fékk skeyti frá ágætum félaga mínum og ítölskum útgefanda í Mílanó. Hann langar að fá okkur fjögur í heimsókn til Mílanó á leið okkar til baka heim í næstu viku. Við sögðum bara já við komum. Nú höfum við fundið fína AirBnB íbúð í Mílanó höfum ákveðið að vera þar í þrjá daga áður en við setjumst að í Chamonix í nokkra daga áður en við keyrum svo alla leið til Danmerkur.

Svo fékk ég í morgun skemmtilegt bréf frá ungum manni sem hafði sent mér handrit að barnabók og ég las á leið minni til New York í síðasta mánuði. Ein skemmtilegasta barnabók sem ég hef lesið í háa herrans tíð. Þessi ungi maður er búinn að fá íslenskt útgáfutilboð sem mér fannst gott að heyra (mér heyrðist þó að hann ætlaði að hafna tilboðinu, fannst forlagið ekki henta sér.) Hann furðaði sig mjög á hvernig íslensk bókaforlög á Íslandi meðhöndluðu handrit hans. Ég vona satt að segja að bókin hans komi út.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.