La Chiusa, Ítalía. Bréf um miðja nótt

Auglýsingamaðurinn vinur okkar Carsten bauð okkur í kvöldmat í kvöld. Hann er fyndinn maður, Carsten. Hann hefur notað allan daginn í að undirbúa kvöldmatinn, tína perur af perutrénu í garðinum hjá sér, hendast til vínsalans til að kaupa Asti-vín (hvítvín sem er svolítið kolsýrt) sem hann sýður perurnar í. Hann er búinn að sjóða tómata í allan dag til að búa til hina fullkomnu pastasósu. Hann fór á fiskimarkaðinn til að kaupa risarækjur, síðustu 18 sem voru veiddar í morgun. Hann var búinn að tala við kjötkaupmanninn um svínakjötið og um nautakjötið…. ég meina maturinn var frábær í kvöld hjá Carsten, og hann var búinn að velja fínustu rauðvin og fínustu hvítvín með matnum. Gaman.

Ég var eirðarlaus í dag eins og aðra daga. Gekk í kringum sjálfan mig og hrökk í kút þegar síminn hringdi í tíunda skiptið í dag. Þó las ég svolítið en ég hef það betra þegar ég mála húsið eða spila tennis.

Bókmenntamoli: Það eru keyrðir samkvæmisleikir á síðum menningarkálfana í hinum útlendu stórblöðum. Ég las Telegraph í dag. Og þeir prentuðu nýjan bókmenntasamkvæmisleik. Hvaða óþekktu bók hefurðu lesið sem ætti skilið að allir í heiminum læsu? Þessi leikur er inspireraður af rithöfundinum Ian McEwan og skáldsögunni Stoner. Fyrir þremur árum vakti það mikla athygli þegar Ian McEwan notaði hvert tækifæri til að benda bókmenntaáhugamönnum á bók ameríska höfundarins John Williams, Stoner. „Besta bók sem þú hefur ekki lesið,“ var slóganið sem Ian McEwan og væntanlegir útgefendur Stoner notuðu. Bókin fékk skyndilega alnýtt líf, alls staðar í heiminum var bókin endurútgefin eða frumútgefin  (nema á Íslandi) og sat  vikum saman á metsölulistum jafnt á Ítalíu sem í Danmörku.

Í dag fengu Telegraph menn þekkta höfunda til að velja óþekkta bók eða bækur sem gaman væri að kynna fyrir bókmenntaáhugamönnum. Tíu þekktir höfundar tóku þátt í leiknum og bentu á, mér, óþekktar bækur sem þeim fannst þess virði að lesendur tækju eftir. Ég lét ekki ginnast af þessum lofsöng um gleymdar bækur, eða jú ég var áhugasamur um eina bók: Rithöfundurinn Esther Freud mælti með bók eftir Jean Rhys: Voyage in the Dark (Leiðangur inn í myrkrið) og hún (Esther) segir: „Þetta er bókin sem breytti mér. Hún gerði það að verkum að ég fór að íhuga möguleikann á að ég sjálf færi að skrifa skáldsögu. Lesturinn vakti hjá mér von um að skáldsaga um minni og þrá, um einsemd og samveru, gæti verið page-turner.“

Svona var það nú.

Nú er nótt hér í ólífulundinum. Ég sit úti á svölum í myrkrinu. Það er kveikt í vindli og reykurinn frá vindlinum liðast upp úr öskubakkanum. Lyktin er góð og það er alger þögn. Í fjarska heyra ég þó engispretturnar syngja sinn söng. Og einhvers staðar enn lengra í burtu eru villisvín á ferð. Þau rymja, svínin. Og svo skyndilega heyrist pling í tölvunni minni, mér hálfbregður,  og inn smeygir sér langur póstur frá skáldinu SJÓN sem líka er staddur í útlöndum og er líka vakandi um nótt. Honum finnst tilheyra að mennta mig aðeins. Senda langan póst með tillögum og vangaveltum. Það finnst mér gaman.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.