La Chiusa, Ítalía. Ferðalög

Mér þótti fyndið bréfið sem SJÓN sendi mér í gær en það fjallaði að stærstum hluta um ferðalög rithöfunda, sem ég hafði furðað mig á, í aukasetningu hér á Kaktusnum. Sjón  er snjall maður og útskýrir á útsmoginn hátt tilgang hinna tilgangslausu ferða:

Nú les ég að þú hefur komist að því að nokkuð algengt sé að rithöfundar ferðist of mikið að óþörfu. Það er örugglega rétt athugað hjá þér. Ég er til dæmis í Potsdam núna. Ég kom hingað frá Osló og fer héðan til Paraty í Brasilíu. Svona neyðarlegt getur þetta orðið. Og ég hef mér ekkert til afsökunar.

Hins vegar má velta fyrir sér af hverju þessi tiltekni hópur fólks hagar sér svona furðulega umfram aðra í samfélaginu. Mér dettur í hug að það sé vegna þess að starfið sjálft, bókmenntaskrifin, er ekki ólíkt lýsingum þínum á þessum endalausu tilgangslausu ferðalögum með óvissa útkomu.

Það er lagt upp með lítið — oft ekki annað en óútskýrða og í raun vandræðalega mikla löngun til þess að moða eitthvað úr smáræðinu — og niðurstaðan er sjaldnast eitthvað sem höfundurinn sjálfur getur hrópað húrra fyrir, hvað þá útgefandinn, að ég minnist ekki á gagnrýnendur og blásaklausa lesendurna. Þetta á bæði við um einstök verk og samanlagt lífsstarf höfundanna. Fæstir komast á leiðarenda og af þeim sem ná honum berast sjaldnast góðar fréttir.

Já, kannski eru skrifin og ferðalögin bara tvær birtingarmyndir sömu meinsemdarinnar. Sem minnir mig á að fyrir sextíuogeinu ári kom út á Íslandi ljóðabók sem nefnist Ferð án fyrirheits. Það er sennilega besti bókartitill allra tíma…

Þetta með ferðalögin var sett fram í hálfkæringi hjá mér án nokkurrar dýpri hugsunar. En það á maður ekki að gera því það eru margir sem taka skrifin hérna alvarlega. Svo ég á að venja mig á að stíga varlega til jarðar. Passa mig á hvað ég segi. Nú hef ég fengið bréf frá þremur rithöfundum, í gær og í dag, auk bréfsins frá SJÓN, þar sem menn vilja skýra fyrir mér ferðalög sín. Og nú í kvöld var mér bent á að enn einn rithöfundur hefði brugðist við Katusskrifum á eigin bloggi. Enginn af þeim rithöfundum sem hafa skrifað til mín hefur sett ferðalög rithöfunda í jafnglæsilegan búning og SJÓN.

Blogghöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl nálgast viðfangsefnið „ferðalög rithöfunda“ á nokkuð annan hátt en SJÓN. Hann segir:

Ég sá að útgefandi nokkur í Danmörku var að velta því fyrir sér hvers vegna rithöfundar ferðuðust svona mikið á hátíðir og þvíumlíkt og tók það til mín, enda ferðast ég frekar mikið. Við þessari spurningu útgefandans eru tvö svör.

***

Annars vegar er ekki endilega leiðinlegt að ferðast …

***

Hins vegar borga útgefendur afar illa, einsog þeim danska hlýtur að vera ljóst – það er lítið upp úr þessu að hafa nema fyrir Rowlingana. Ég hef talsvert af tekjum mínum af upplestrum og þátttöku í bókamessum og bókmenntahátíðum. Og mig munar satt best að segja um hvern tíkall.

Eligansinn yfir skýringum Eiríks er kannski ekki sá sami  og SJÓNS en sjónarhorn hans er samt sem áður alveg fyrirtak. Til skýringar á tilvitnuninni hér að ofan þá er það ég, undirritaður, sá sem blogghöfundur kallar „útgefandi nokkur í Danmörku“.  Þótt ég sé nú ólífubóndi þá eru ekki margir sem vita það og halda að ég sé enn útgefandi í Danmörku.

Hitt að útgefendur borga afar illa veit ég ekki neitt um, ég hef ekki komið nálægt samningum við innlenda höfunda í 9 ár. Ég veit heldur ekki hvort rétt sé að kenna útgefendum um peningaleysi höfunda, en ég þekki ekki lengur kjör íslenskra rithöfunda. Þó veit ég að höfundar hafa hingað til fengið um að bil 23% af sölutekjum bóka sinna. Og ef bók selst ekki eða höfundur selur fáar bækur á ári (hver sem ástæðan er fyrir því) þá er tekjumöguleikar rithöfunda litlir og árstekjur lágar. Ef ferðalög eru hins vegar uppspretta peninga fyrir höfunda þá er það mjög skiljanlegt að menn leggist í víking og afli fjár. Eiríkur Norðdahl hefur rétt fyrir sér að ferðalög eru ekki leiðinleg leið til að skrapa peninga í sparibaukinn.  Yo.

Annars er það héðan að frétta að við vorum að koma úr mat frá söngkonunni Sanne sem á hús í næsta dal. Hún er súpukona og við borðuðum topp góða súpu hjá Sanne. Við sátum á svölunum hennar og horfðum yfir Adríahafið á meðan við gerðum upp þetta sumarfrí, sem nú er að verða búið, og plönuðum næsta sumarfrí sem er væntanlega að ári.

ps myndin hér að ofan er af VICO DEL GARGANO, þorpsins sem er hér 2 km fyrir ofan litla hússins okkar. Myndin var tekin á leið til Sanne í kvöld.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.